35 Sverð gegn Kaldeum,
segir Drottinn,
gegn íbúum Babýlonar,
gegn höfðingjum hennar og vitringum.
36 Sverð kemur gegn spáprestunum
svo að þeir verði að glópum.
Sverð kemur gegn köppum Babýlonar
svo að þeir missi kjarkinn.
37 Sverð kemur gegn hestum hennar og vögnum,
gegn öllum þjóðunum sem í henni eru
svo að þær verði að konum.
Sverð kemur gegn fjársjóðum hennar
svo að þeim verði rænt.
38 Sverð kemur gegn vatni hennar
svo að það þorni.
Þar sem þetta er land skurðgoða
æra líkneskin þá.
39 Því munu eyðimerkurdýr og hýenur setjast þar að,
strútar munu búa í Babýlon.
Aldrei mun neinn setjast þar að framar,
þar mun enginn búa frá kyni til kyns.
40 Eins fer fyrir henni
og þegar Guð eyddi Sódómu og Gómorru
og nágrannaborgum hennar,
segir Drottinn.
Þar mun enginn maður búa
og enginn hafa þar viðdvöl.

Þjóð úr norðri

41 Þjóð kemur úr norðri,
mikil þjóð.
Voldugir konungar halda af stað
frá endimörkum jarðar.
42 Þeir eru vopnaðir bogum og bjúgsverðum,
þeir eru grimmir og miskunnarlausir.
Hávaðinn frá þeim líkist hafgný,
þeir koma ríðandi á hestum,
hver þeirra búinn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon.
43 Þegar konungur Babýlonar heyrði fréttina
lömuðust hendur hans,
angist greip hann
og hann kvaldist eins og kona í barnsnauð.
44 Líkt og ljón, sem rís upp úr kjarrinu á bökkum Jórdanar
og stígur út á sígrænt engið,
mun ég flæma þá burt á augabragði
og velja mér bestu sauðina að bráð.
Því að hver er jafnoki minn?
Hver getur krafið mig reikningsskila?
Hvaða hirðir stenst frammi fyrir mér?
45 Heyrið því ákvörðun Drottins
sem hann hefur tekið um Babýlon,
ráðin sem hann hefur ráðið gegn landi Kaldea:
Jafnvel hinir minnstu úr hjörðinni verða dregnir burt,
sannarlega mun bithaga þeirra hrylla við örlögum þeirra.
46 Jörðin nötrar af hrópinu:
„Babýlon er unnin,“
og óp hennar heyrist til annarra þjóða.