Fagnað yfir falli Babýlonar

21Sæktu fram gegn Marataím
og íbúunum í Pekod. [
Helgaðu þá banni með sverði,
segir Drottinn,
gerðu allt það sem ég hef boðið þér.
22 Vopnagnýr glymur í landinu,
algjör ósigur.
23 Er ekki kylfan moluð sem sló allan heiminn?
Hvílík hryggðarmynd er Babýlon orðin
meðal allra þjóða.
24 Þú lagðir snöru og festist í henni sjálf.
Áður en þú vissir af, Babýlon,
varstu gripin og tekin höndum
því að þú bauðst Drottni birginn.
25 Drottinn hefur opnað vopnabúr sitt
og sótt vopn heiftar sinnar
því að Drottinn, Guð hersveitanna,
hefur verk að vinna í landi Kaldea.
26 Sækið gegn henni úr öllum áttum,
opnið forðabúrin.
Hrúgið öllu saman eins og kornbing,
helgið það síðan banni,
ekkert má eftir verða.
27 Drepið alla uxana með sverði,
leiðið þá alla til slátrunar.
Vei þeim. Þeirra tími er kominn,
dagur uppgjörs.
28 Hlýðið á! Flóttamennirnir, sem hafa sloppið frá landi Babýlonar,
greina frá hefnd Drottins, Guðs vors, á Síon,
hefnd fyrir musteri hans.

Uppgjör við Babýlon

29 Kveðjið til bogaskyttur gegn Babýlon,
alla sem benda boga.
Setjist um hana á allar hliðar,
enginn skal komast undan.
Gjaldið Babýlon verk hennar,
farið með hana eins og hún fór með aðra.
Þar sem hún hreykti sér gegn Drottni,
gegn Hinum heilaga í Ísrael,
30 munu æskumenn hennar falla á torgum
og allir hermenn hennar bíða bana á þeim degi,
segir Drottinn.
31 Nú fer ég gegn þér, hrokagikkur,
segir Drottinn, Guð hersveitanna,
því að þinn tími er kominn,
dagur uppgjörs.
32 Hinn drambláti hrasar og dettur,
enginn hjálpar honum á fætur.
Ég kveiki í borgum hans,
eldurinn gleypir allt sem umhverfis hann er.

Ísrael bjargað

33 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Ísraelsmenn eru kúgaðir
og Júdamenn einnig.
Allir þeir sem fluttu þá í útlegð
hafa þá í haldi,
vilja ekki láta þá lausa.
34 En endurlausnari þeirra er máttugur,
Drottinn hersveitanna er nafn hans.
Hann mun sjálfur reka réttar þeirra
þannig að hann færi heiminum hvíld
en íbúum Babýlonar ófrið.