Úrslitaorrustan

8Farið frá Babýlon og úr landi Kaldea
og verið sem forystusauðir fyrir hjörðinni.
9Því að ég stofna sjálfur bandalag mikilla þjóða
og leiði það gegn Babýlon,
frá landinu úr norðri.
Það fylkir sér gegn Babýlon
og úr norðri verður hún unnin.
Örvar þess eru sem giftusöm hetja
sem ekki snýr aftur án þess að hafa drýgt dáð.
10Land Kaldea verður herfang,
allir sem ræna það fá nægju sína,
segir Drottinn.
11Já, gleðjist og fagnið,
þér sem rænduð erfðahlut mínum.
Já, hoppið um eins og kvíga í haga,
hvíið eins og stóðhestar.
12Móðir yðar verður auðmýkt,
hún sem fæddi yður verður smánuð:
Já, hún er aumust allra þjóða,
eyðimörk, uppþornuð og skrælnuð.
13Hún verður óbyggð vegna heiftar Drottins,
hún verður að algjörri auðn.
Hvern sem á leið hjá Babýlon mun hrylla við,
hann mun hæðast að öllum áföllum hennar.
14Bogaskyttur, fylkið yður allar umhverfis Babýlon.
Skjótið á hana. Sparið ekki örvarnar
því að hún hefur syndgað gegn Drottni.
15Hrópið heróp gegn henni úr öllum áttum.
Hún hefur gefist upp. [
Súlur hennar hrynja,
múrarnir jafnaðir við jörðu.
Þetta er hefnd Drottins,
hefnið yðar á Babýlon,
farið með hana eins og hún fór með aðra.
16Upprætið sáðmenn úr Babýlon
og þá sem beita sigðinni um uppskerutímann.
Undan hinu eyðandi sverði
snýr hver og einn, snýr aftur til þjóðar sinnar,
sérhver flýr til síns lands.

17 Ísrael var sundruð sauðahjörð
sem ljón höfðu tvístrað. Fyrst át Assýríukonungur nokkuð af henni en að lokum nagaði Nebúkadresar, konungur í Babýlon, beinin.
18 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, svo: Ég mun draga konunginn og land hans til ábyrgðar eins og ég gerði Assýríukonung ábyrgan.
19 En ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, hann verður á beit á Karmel og Basan, á fjöllum Efraíms og Gíleaðs mun hann seðja hungur sitt.
20 Á þeim dögum og á þeirri tíð, segir Drottinn, verður sektar Ísraels leitað án árangurs og synda Júda án þess að þær finnist því að ég mun fyrirgefa þeim sem ég skil eftir.