49. kafli

Gegn Elam

34 Orð Drottins gegn Elam, sem kom til Jeremía spámanns við
upphaf stjórnartíma Sedekía Júdakonungs:
35 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Nú brýt ég boga Elamíta,
öflugasta vopn þeirra.
36 Ég hleypi á Elam fjórum vindum,
frá fjórum hornum himins.
Ég tvístraði þeim fyrir öllum þessum vindum
og engin sú þjóð verður til
að flóttamenn frá Elam komi þangað ekki.
37 Ég skýt Elamítum skelk í bringu
frammi fyrir fjandmönnum þeirra,
frammi fyrir þeim sem sækjast eftir lífi þeirra.
Ég sendi böl gegn þeim,
logandi reiði mína, segir Drottinn.
Ég sendi sverðið á eftir þeim
þar til ég hef eytt þeim.
38 Ég reisi hásæti mitt í Elam
og eyði þaðan konungi og höfðingjum, segir Drottinn.
39 En eftir það mun ég snúa við högum Elams, segir Drottinn.

50. kafli

Babýlon fellur. Heimför Ísraelsmanna

1 Orðið sem Drottinn flutti af munni Jeremía spámanns gegn Babýlon, landi Kaldea.
2Kunngjörið meðal þjóðanna og boðið það,
hefjið gunnfána og boðið,
þegið ekki um það en segið:
Babýlon er sigruð, Bel auðmýktur,
Mardúk skelfingu lostinn,
skurðgoð Babýlonar eru auðmýkt,
goð hennar skelfd.
3Því að þjóð úr norðri ræðst á Babýlon,
hún leggur landið í eyði
svo að enginn býr þar framar,
menn og skepnur flýja, hverfa á braut.
4Á þeim dögum og á þeim tíma, segir Drottinn,
munu Ísraelsmenn koma heim
og Júdamenn með þeim.
Grátandi munu þeir ganga
og leita Drottins, Guðs síns.
5Þeir spyrja til vegar til Síonar,
þangað stefna þeir:
Komið, vér skulum bindast Drottni
með ævarandi sáttmála sem aldrei gleymist.
6Þjóð mín var villuráfandi sauðahjörð,
hirðar hennar leiddu hana afvega í fjöllunum,
þeir reikuðu um fjöll og hæðir
og gleymdu hvíldarstað sínum.
7Allir sem rákust á sauðina átu þá
og fjandmenn þeirra sögðu:
Vér gerum ekkert rangt
því að þeir hafa syndgað gegn Drottni,
hinu rétta haglendi þeirra,
og gegn von feðra þeirra, Drottni.