Gegn Damaskus

23 Um Damaskus:
Hamat og Arpad eru felmtri slegnar
því að þeim hafa borist ótíðindi.
Þær eru iðandi af áhyggjum
eins og hafið sem aldrei getur verið kyrrt.
24 Íbúana í Damaskus brestur kjark,
þeir leggja á flótta, gripnir skelfingu,
engjast eins og jóðsjúk kona.
25 Er hin glæsta borg ekki gersamlega yfirgefin,
borg gleði og glaums?
26 Því munu æskumenn hennar falla á torgunum
og allir hermenn farast á þeim degi,
segir Drottinn hersveitanna.
27 Ég mun leggja eld að borgarmúrum Damaskus
svo að hann gleypi hallir Benhadads.

Gegn arabískum ættbálkum

28 Um Kedar og konungsríki Hasórs sem Nebúkadresar
Babýloníukonungur sigraði:
Svo segir Drottinn:
Komið, ráðist á Kedar.
Gereyðið austurbyggjum.
29 Þeir munu ræna tjöldum þeirra og sauðahjörðum,
tjalddúkum þeirra og öllum búnaði,
taka úlfalda þeirra með sér
og hrópa yfir þeim: „Skelfing úr öllum áttum.“
30 Leggið á flótta, flýið sem hraðast.
Skríðið í felur,
þér sem búið í Hasór, segir Drottinn,
því að Nebúkadresar, konungur í Babýlon,
hefur lagt á ráð gegn yður
og tekið ákvörðun.
31 Komið, ráðist á þessa ugglausu þjóð
sem býr við öryggi, segir Drottinn,
og hefur hvorki hurðir né slagbranda og býr ein sér.
32 Úlfaldar þeirra verða ránsfengur
og fjölmargar nautahjarðir herfang.
Ég mun dreifa þeim út í veður og vind,
þeim sem hafa skorið hárið frá gagnaugunum
mun ég senda böl úr öllum áttum, segir Drottinn.
33 Hasór verður bústaður sjakala,
þar mun enginn maður búa og enginn hafa þar viðdvöl.