35 Ég mun hindra, segir Drottinn, að Móab færi brennifórnir á fórnarhæðinni og kveiki guðum sínum fórnareld. 36 Hjarta mitt titrar vegna Móabs eins og flaututónn og hjarta mitt titrar eins og flaututónn vegna fólksins frá Kír-Heres því að það hefur misst það sem eftir var af eigum þess. 37 Sérhvert höfuð er rakað, hvert skegg hefur verið skorið af, á hverjum handlegg eru skinnsprettur, um lendarnar hærusekkur. 38 Á hverju þaki og hverju torgi í Móab heyrist harmagrátur því að ég hef mölbrotið Móab eins og gagnslaust leirker, segir Drottinn. 39 Æ, hversu niðurbrotinn er hann. Hversu skammarlega sneri Móab baki í fjandmennina og flýði. Og Móab er orðinn til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum.

Dómur yfir Móab

40 Svo segir Drottinn:
Óvinurinn kemur svífandi eins og örn
og þenur vængina út yfir Móab.
41 Borgirnar eru unnar,
fjallavirkin fallin,
þann dag líður köppunum í Móab
eins og konu í barnsnauð.
42 Móab verður afmáður,
hann verður ekki þjóð framar
því að hann hreykti sér gegn Drottni.
43 Geigur, gryfja og gildra ógna þér
sem býrð í Móab, segir Drottinn.
44 Sá sem flýr geiginn
fellur í gryfjuna,
sá sem kemst upp úr gryfjunni
lendir í gildrunni.
Já, þetta sendi ég yfir Móab
árið sem hann verður dreginn til ábyrgðar.
45 Í skugga Hesbons standa örmagna flóttamenn
en eldur brýst út úr Hesbon,
borg Síhons stendur í ljósum logum.
Eldurinn sleikir þunnvanga Móabs,
hvirfil hávaðamannanna.
46 Vei þér, Móab.
Þú, þjóð Kamoss, ert glötuð.
Synir þínir eru hraktir í útlegð,
dætur þínar teknar til fanga.
47 Því næst mun ég snúa högum Móabs, segir Drottinn.
Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.