16Tortíming Móabs er í nánd,
ógæfan dynur brátt yfir hann.
17Sýnið honum samúð, nágrannar hans,
og allir sem þekkið nafn hans.
Segið: „Hvers vegna brast hinn sterki stafur,
hinn dýrlegi veldissproti?“

Frásögn flóttamannanna

18Stíg niður úr vegsemdinni, sestu í skarnið,
dóttir, sem býrð í Díbon,
því að eyðandi Móabs heldur gegn þér
og brýtur varnarvirki þín.
19Þú sem býrð í Aróer,
gakktu út á götuna og horfðu í kringum þig,
spyrðu flóttamanninn og konuna sem komist hefur undan: „Hvað gerðist?“
20Móab var niðurlægður, já, niðurbrotinn.
Grátið og kveinið.
Kunngjörið við Arnon:
Móab hefur verið eytt.
21Refsidómur kom yfir sléttlendið,
yfir Hólon, Jahsa og Mefaat,
22 yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím,
23 yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon,
24 yfir Keríót og yfir Bosra,
yfir allar borgir í Móab, nær og fjær.
25 Horn Móabs var höggvið af,
armur hans brotinn, segir Drottinn.
26 Gerið Móab drukkinn
því að hann hefur hreykt sér gegn Drottni,
hann skal því spýja og verða að athlægi.
27 Varð Ísrael þér ekki aðhlátursefni?
Var hann gripinn meðal þjófa
fyrst þú skekur þig háðslega
í hvert skipti sem þú nefnir hann?
28 Flýið borgirnar, setjist að í klettunum,
þér, sem búið í Móab,
farið að eins og dúfan
sem gerir sér hreiður í klettum, í gapandi gjá.

Hroki Móabs

29 Vér höfum heyrt um hroka Móabs,
hann er fram úr hófi hrokafullur.
Um hroka hans og stolt höfum vér heyrt,
um dramb hans og ofmetnað.
30 Ég veit sjálfur um oflæti hans, segir Drottinn,
marklaus gífuryrði og einskisverð verk.
31 Þess vegna græt ég yfir Móab,
ég harma allan Móab,
kveina yfir fólkinu í Kír-Heres.
32 Ég græt meira yfir þér, vínviður í Síbma,
en yfir Jeser,
greinar þínar héngu út yfir hafið,
þær náðu til Jeser.
Eyðandinn kastaði sér yfir uppskeru þína
af ávöxtum og víni.
33 Fögnuður og gleði er horfin
úr víngörðunum og úr Móabslandi.
Vínið er þorrið í vínpressunum,
enginn treður þær lengur,
fagnaðarópin eru þögnuð.

34 Kveinið frá Hesbon og Eleale glymur til Jahas, menn æpa frá Sóar til Hórónaím og Eglat-Selisía, já, vatnsfarvegurinn við Nimrím breytist í eyðimörk.