Gegn Móab: Eyðing Móabs

1 Um Móab.
Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels:
Vei, Nebó, hún er lögð í eyði, Kirjataím fallin,
virkið er orðið til skammar, lagt í rúst,
2vegsemd Móabs er horfin.
Í Hesbon brugguðu menn ill ráð gegn ríkinu:
„Komið, upprætum þá sem þjóð.“
Madmen, þú munt einnig þagna, sverðið eltir þig. [
3Heyrið kveinið frá Hórónaím, eyðing og tortíming.
4Móab er molaður, kveinin heyrast allt til Sóar.
5Menn ganga grátandi upp stíginn við Lúkít,
á veginum niður til Hórónaím
heyrast skelfingaróp vegna tortímingarinnar.
6Flýið, bjargið lífi yðar,
verðið sem villiasnar í eyðimörkinni.
7Þar sem þú treystir eigin verkum og auði
verður þú unnin,
Kamos mun fara í útlegð
ásamt prestum sínum og höfðingjum.
8Eyðandinn ræðst á sérhverja borg,
engin borg mun bjargast.
Dalurinn verður eyddur
og sléttunni spillt
eins og Drottinn hefur sagt.
9Reisið minnisstein yfir Móab
því að honum verður tortímt,
borgirnar verða lagðar í auðn,
enginn mun búa þar framar.
10Bölvaður sé sá sem hikar við að vinna verk Drottins.
Bölvaður sé sá sem synjar sverði sínu um blóð.
11Móab naut friðar frá æsku,
hann hvíldi í næði eins og vín á dreggjum.
Honum var ekki hellt úr einu keri í annað
og hann fór aldrei í útlegð.
Því varðveitti hann bragð sitt
og ilmurinn breyttist ekki.
12Þeir dagar koma, segir Drottinn,
þegar ég sendi menn til að hella úr honum,
þeir munu tæma ker hans, brjóta krukkur hans.
13Móab verður smánaður af Kamos
eins og Ísraelsmenn voru smánaðir af Betel sem þeir treystu.
14Hvernig getið þér sagt: „Vér erum hetjur,
hraustir hermenn?“
15Eyðandi Móabs heldur upp eftir gegn borgum hans
en blómi æskumanna hans fer niður eftir og verður slátrað,
segir konungurinn, Drottinn hersveitanna er nafn hans.