46. kafli

Björgun Ísraels

27 En þú, þjónn minn, Jakob, óttast ekki,
lát ekki hugfallast, Ísrael,
því að ég bjarga þér frá fjarlægu landi
og niðjum þínum úr útlegð.
Jakob mun snúa heim og njóta næðis,
hann mun búa þar óhultur
og enginn mun ógna honum.
28 Þú, þjónn minn, Jakob, óttast ekki, segir Drottinn,
því að ég er með þér.
Ég mun eyða öllum þeim þjóðum
sem ég hrakti þig til.
Þér mun ég aldrei eyða
heldur mun ég hirta þig við hæfi,
ég get ekki látið þér óhegnt með öllu.

47. kafli

Gegn Filisteum

1 Orð Drottins um Filistea sem kom til Jeremía spámanns áður en faraó tók Gasa.
2Svo segir Drottinn:
Vatn sem streymir úr norðri
mun brjótast fram sem stórfljót,
það mun flæða yfir landið og allt sem í því er,
borgirnar og íbúa þeirra,
menn munu æpa hátt
og allir íbúar landsins hljóða.
3Þegar hófadynur stríðshesta þeirra glymur,
dynurinn í hervögnum þeirra ærir og hjól þeirra hvína,
munu feður ekki líta til barna sinna
því að hendur þeirra lémagnast.
4Sá dagur er kominn að öllum Filisteum verði eytt.
Öllum sem komast undan og gætu hjálpað Týrus og Sídon verður tortímt
því að Drottinn eyðir Filisteum,
öllum sem eftir eru af þeim sem koma frá Kaftór.
5Gasa hefur rakað á sig skalla, Askalon er þögnuð,
hve lengi ætlið þér að rista á yður skinnsprettur,
þér, sem eftir eruð af niðjum Anaks?
6Vei, sverð Drottins, hvenær hvílist þú?
Farðu aftur í slíðrið,
taktu á þig náðir.
Mál er að linni.
7Hvernig gæti það hvílst
því að Drottinn gaf því fyrirmæli?
Hann sendi það gegn Askalon
og landinu við strönd hafsins.