13 Orðið, sem Drottinn flutti Jeremía spámanni, um að Nebúkadresar, konungur í Babýlon, kæmi til að ráðast á Egyptaland:
14Kunngjörið þetta í Egyptalandi, boðið það í Migdól,
boðið það í Nóf og Takpanes.
Segið: „Rístu upp og vertu viðbúinn,
því að sverðið gleypir allt umhverfis yður.“
15Hvers vegna er hinn máttugi lagður að velli?
Hann stendur ekki uppréttur af því að Drottinn hratt honum,
16hann lét marga hrasa svo að þeir féllu.
Þá sögðu þeir hver við annan:
Komið, snúum aftur til þjóðar vorrar,
til ættlands vors,
undan hinu eyðandi sverði.
17Nefnið faraó Egyptalandskonung
„hávaðasegg sem lét tækifærið ganga sér úr greipum“.
18Svo sannarlega sem ég lifi, segir konungurinn,
Drottinn hersveitanna er nafn hans:
Eins og Tabor ber af öðrum fjöllum,
eins og Karmel, sem gnæfir yfir hafið, er hann sem nálgast.
19Taktu saman farangur til útlegðar,
þú, dóttirin Egyptaland, sem býrð við öryggi,
því að Nóf verður eyðimörk,
brennd til ösku og mannauð.
20Egyptaland er álitleg kvíga,
broddfluga ræðst á hana úr norðri.
21Málalið mitt í landinu líkist alikálfum
en þeir hörfa einnig undan,
flýja allir sem einn og fá ekki staðist
þegar dagur eyðingarinnar kemur yfir þá,
stund uppgjörsins.
22 Egyptaland hvæsir eins og naðra
þegar þeir koma með her sinn.
Þeir gera árás með öxum eins og skógarhöggsmenn,
23 þeir fella skóg Egyptalands, segir Drottinn,
þeir eru óteljandi, fleiri en engisprettur,
engri tölu verður á þá komið.
24 Dóttirin Egyptaland verður svívirt,
seld í hendur þjóðinni úr norðri.
Niðurlæging Egyptalands
25 Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, hefur sagt: Ég refsa Amón frá Nó, og faraó og Egyptalandi og guðum landsins og konungum, bæði faraó og þeim sem treysta honum. 26 Ég mun selja þá í hendur þeim sem sækjast eftir lífi þeirra, í hendur Nebúkadresari, konungi í Babýlon, og mönnum hans. En eftir það verður Egyptaland byggt aftur eins og á fyrri tíð, segir Drottinn.