Spádómar gegn þjóðunum

1 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um þjóðirnar.

Gegn Egyptalandi: Orrusta við Efrat

2 Um Egyptaland: Gegn her Nekós faraós, konungs Egyptalands, sem var við fljótið Efrat, við Karkemis, og Nebúkadresar, konungur í Babýlon, sigraði á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs:
3Búist smáskjöldum og langskjöldum,
haldið til orrustu.
4Spennið vagnhestana fyrir
og stígið á bak reiðhestunum.
Gangið fram með hjálm á höfði,
fægið spjótin,
búist brynju.
5Hvað sé ég?
Þeir skelfast.
Þeir hörfa undan,
kapparnir eru yfirbugaðir,
þeir flýja, líta ekki við.
Ógn steðjar að úr öllum áttum, segir Drottinn.
6Sá sem er frár á fæti nær ekki að flýja,
kappinn kemst ekki undan.
Norður frá, á bökkum Efrats, hnjóta þeir og hrasa.
7Hver er það sem brýst fram eins og Níl í vexti,
eins og dynjandi vatnsflaumur?
8Egyptar brjótast fram eins og Níl,
eins og dynjandi vatnsflaumur.
Þeir hugsa: Ég mun brjótast fram, flæða yfir landið,
eyða borgunum og íbúum þeirra.
9Áfram, stríðsfákar,
æðið fram, hervagnar,
gangið fram, hermenn,
þér skjaldberar frá Kús og Pút
og Lydíumenn sem spennið boga.
10Þessi dagur er dagur Drottins hersveitanna,
dagur hefndarinnar
er hann hefnir sín á fjandmönnum sínum.
Sverðið mun eta og seðjast,
verða drukkið af blóði þeirra,
því að Guð, Drottinn hersveitanna,
heldur fórnarveislu í landinu fyrir norðan, við Efrat.
11Farðu upp til Gíleaðs og sæktu græðandi smyrsl,
mærin, dóttirin Egyptaland.
Til einskis safnarðu að þér lyfjum,
sár þitt grær ekki.
12Þjóðirnar frétta um smán þína,
harmakvein þitt glymur um alla jörðina
því að kappi hnýtur um kappa,
þeir falla hver um annan.