44. kafli

24 Síðan sagði Jeremía við allt fólkið og allar konurnar: „Hlýðið á orð Drottins, allir Júdamenn, sem eruð í Egyptalandi: 25 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þér og konur yðar hafið sýnt það í verki sem þér hafið heitið í orði. Þér segið: Vér viljum halda heitið sem vér unnum og kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir. Haldið þá heit yðar og efnið það sem þér hafið heitið. 26 Hlýðið á orð Drottins, allir Júdamenn sem búið í Egyptalandi: Ég sver við mitt mikla nafn, segir Drottinn: Enginn Júdamanna skal hér eftir nefna nafn mitt neins staðar í Egyptalandi og segja: Svo sannarlega sem Drottinn, Guð lifir. 27 Ég vaki yfir þeim til óheilla en ekki til heilla. Allir Júdamenn í Egyptalandi munu falla fyrir sverði eða farast úr hungri og þeim verður gereytt. 28 Örfáir sem komast undan sverðinu munu halda frá Egyptalandi heim til Júda. Allir sem eftir eru af Júdamönnum og eru komnir til Egyptalands að leita þar hælis munu komast að raun um hvort það er mitt orð eða þeirra sem rætist. 29 Og hafið þetta til marks, segir Drottinn, um að ég mun vitja yðar á þessum stað svo að þér komist að raun um að ógæfan, sem ég hef ógnað yður með, mun áreiðanlega koma yfir yður. 30 Svo segir Drottinn: Ég sel Hofra faraó, konung Egyptalands, fjandmönnum sínum í hendur og í hendur þeim sem sækjast eftir lífi hans, á sama hátt og ég seldi Sedekía Júdakonung í hendur Nebúkadresari, konungi í Babýlon, sem var fjandmaður hans og sóttist eftir lífi hans.“

45. kafli

Huggunarorð til Barúks

1 Þennan boðskap flutti Jeremía spámaður Barúk Neríasyni þegar hann var að skrifa þessar ræður á bók eftir Jeremía, á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs: 2 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels, um þig, Barúk: 3 Þú hefur sagt: Vei mér því að Drottinn bætir kvíða við kvöl mína. Ég er orðinn örmagna af andvörpum mínum og finn enga hvíld. 4 Því skaltu segja við hann: Svo segir Drottinn: Ég mun brjóta niður það sem ég hef byggt, ég mun uppræta það sem ég hef gróðursett um allt land. 5 Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því. Sjá, ég sendi ógæfu yfir allt dauðlegt, segir Drottinn. En þér mun ég gefa líf þitt að herfangi hvert sem þú ferð.