15 Allir karlmenn, sem vissu að konur þeirra kveiktu fórnareld fyrir framandi guðum, og allar konurnar, sem stóðu þarna í stórum hóp, og allir sem bjuggu í Egyptalandi og Patros svöruðu Jeremía og sögðu: 16 „Vér hlustum ekki á þennan boðskap sem þú hefur flutt oss í nafni Drottins. 17En vér munum fylgja í einu og öllu því sem vér höfum heitið: vér munum kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir. Það gerðum bæði vér og forfeður vorir, konungar vorir og höfðingjar í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Þá höfðum vér nóg til matar, oss farnaðist vel og vér þurftum ekki að þola neina ógæfu. 18 En síðan vér hættum að kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir hefur oss skort allt og vér höfum farist fyrir sverði og úr hungri. 19 Þegar vér nú kveikjum fórnareld fyrir drottningu himins og færum henni dreypifórnir getur það þá verið án vilja og vitundar eiginmanna vorra að vér gerum henni fórnarkökur með mynd hennar og færum henni dreypifórnir?“
20 Þá ávarpaði Jeremía allt fólkið, karla og konur og alla aðra sem höfðu svarað honum, og sagði: 21 „Var það ekki fórnareldurinn sem þér kveiktuð í borgum í Júda og á strætunum í Jerúsalem, bæði þér sjálfir og forfeður yðar, konungar yðar og höfðingjar ásamt bændum í byggðum landsins, var það ekki þessi fórnareldur sem Drottinn minntist og hafði í huga? 22 Drottinn gat ekki lengur þolað illvirki yðar og viðurstyggilegt athæfi. Þess vegna var land yðar lagt í rúst og það gereytt, lögð á það bölvun og það varð óbyggð eins og það er enn. 23 Þar sem þér kveiktuð fórnareld og syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð ekki boðum Drottins og fylgduð hvorki eftir lögum hans, ákvæðum né fyrirmælum kom þetta böl sem enn varir yfir yður.“