Síðasta ræða Jeremía
1 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn sem bjuggu í Egyptalandi og höfðu sest að í Migdól, Takpanes, Nóf og Patroshéraði: 2 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þér hafið sjálfir séð alla þá ógæfu sem ég sendi yfir Jerúsalem og allar aðrar borgir í Júda. Þær eru nú í rústum og enginn býr þar. 3 Það er afleiðing illvirkjanna sem þeir unnu. Þeir vöktu reiði mína með því að fara til framandi guða sem hvorki þeir sjálfir, þér né feður yðar þekktu, kveikja fyrir þeim fórnareld og þjóna þeim. 4 Ég sendi þjóna mína, spámennina, hvað eftir annað til yðar til að boða yður: Fremjið ekki þessa svívirðu sem ég hata. 5 En þeir gáfu því hvorki gaum né lögðu við hlustir. Þeir sneru því ekki frá illvirkjum sínum og hættu ekki að kveikja fórnareld fyrir framandi guðum. 6 Þá var heift minni og reiði úthellt, hún brann í borgum Júda og á strætum Jerúsalem svo að þær urðu að rúst, að auðn, og það eru þær enn.
7 En nú segir Drottinn, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: Hvers vegna viljið þér baka sjálfum yður mikla ógæfu og uppræta sjálfa yður úr Júda, bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga svo að enginn yðar verði eftir? 8 Þér vekið heift mína með handaverkum yðar og kveikið fórnareld fyrir framandi guðum í Egyptalandi þar sem þér hafið leitað hælis. Þér tortímið sjálfum yður með því og uppskerið formælingar og háð allra þjóða jarðar. 9 Hafið þér gleymt illvirkjunum sem feður yðar, Júdakonungar og konur þeirra, unnu og illvirkjunum sem þér sjálfir og konur yðar unnu í Júda og á strætum Jerúsalem? 10 Hingað til hafa þeir hvorki iðrast né óttast og hvorki fylgt lögum mínum né fyrirmælum sem ég lagði fyrir yður og feður yðar.
11 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég sný augliti mínu gegn yður til að valda bölinu, til að eyða öllum Júda. 12 Ég svipti þeim burt sem eftir eru af Júdamönnum og ákváðu að fara til Egyptalands og leita þar hælis. Þeir munu farast í Egyptalandi, háir og lágir munu falla fyrir sverði eða farast úr hungri. Þeir munu deyja fyrir sverði eða úr hungri og verða efni bölbæna og ímynd skelfingar, formælinga og smánar. 13 Ég mun refsa þeim sem sest hafa að í Egyptalandi eins og ég refsaði Jerúsalembúum, með sverði, hungri og drepsótt. 14 Enginn þeirra Júdamanna, sem eftir eru og hafa leitað hælis í Egyptalandi, mun komast undan og bjargast né snúa aftur til Júda þó að þá langi til að fara aftur þangað og setjast þar að. Það verða aðeins örfáir sem komast undan og snúa aftur heim.