Nú á kikongomælandi fólk í Angóla Nýja testamentið á tungumáli sem það getur skilið og tengt sig við, þökk sé stuðningi frá bandaríska Biblíufélaginu!
Þær 537.000 manneskjur sem tala kikongo fengu á liðnu ári nýja þýðingu á Nýja testamentinu á Kikongo, og vakti þýðingin mikla gleði.
Manuel, sem vann að þýðingarverkefninu, sagði: „Í mínum huga er það stórkostlegt gleðiefni að eiga núna Nýja testamentið. Til er eldri útgáfa af Biblíunni á Kikongo, en mörgu fólki fannst hún vera erfið aflestrar. Þessi eldri útgáfa var þýdd árið 1926, á tímum kristniboðanna. Mörg orð eru ekki lengur notuð og núlifandi fólk skilur þau ekki.“
Manuel sagði að fólkið í þorpinu sínu hefði spurt í sífellu hvenær þýðingin yrði tilbúin. Spennan og eftirvæntingin fóru vaxandi hjá því.
Luzolo, tólf ára, sagði: „Þessi nýja biblíuútgáfa er miklu auðskiljanlegri.“
Þessi nýja biblíuþýðing mun hjálpa yngri kynslóðum kikongomælandi fólks á borð við Luzolo að tileinka sér Ritninguna og kynna hana fyrir fleirum í samfélaginu.
Þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson – https://news.americanbible.org/article/the-wait-is-over