1 Bæn hrjáðs manns þá er hann örmagnast
og úthellir harmi sínum fyrir augliti Drottins.
2Drottinn, heyr þú bæn mína,
hróp mitt berist til þín.
3Byrg eigi auglit þitt fyrir mér
þegar ég er í nauðum staddur,
hneig eyra þitt að mér,
svara mér skjótt þegar ég kalla.
4Dagar mínir líða hjá sem reykur
og bein mín brenna sem í eldi,
5hjarta mitt er mornað og þornað sem gras
því að ég gleymi að eta brauð mitt.
6Af kveinstöfum mínum
er ég sem skinin bein.
7Ég líkist pelíkana í eyðimörkinni,
er eins og ugla í eyðirúst,
8ég ligg andvaka,
líkist einmana fugli á þaki.
9Fjandmenn mínir smána mig liðlangan daginn;
þeir sem hamast gegn mér nota nafn mitt til formælinga.
10Já, ég neyti ösku sem brauðs,
blanda drykk minn tárum
11vegna reiði þinnar og bræði
því að þú hófst mig upp og varpaðir mér aftur til jarðar.
12Dagar mínir eru sem síðdegisskuggi
og ég visna sem gras.