Jeremía og Gedalja

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni eftir að Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, hafði leyft honum að fara frá Rama. Þegar Nebúsaradan sótti hann var hann hlekkjaður innan um fanga frá Jerúsalem og Júda sem átti að flytja til Babýlonar. 2 Þegar foringi lífvarðarins fann Jeremía sagði hann við hann: „Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu. 3 Drottinn hefur látið það verða sem hann hótaði og framkvæmt það því að þér hafið syndgað gegn Drottni. Þar sem þér hlýdduð ekki fyrirmælum hans hlaut þessi ógæfa að koma yfir yður. 4 Nú leysi ég af þér hlekkina sem eru á höndum þínum. Ef þú vilt koma með mér til Babýlonar skaltu koma og ég mun annast þig vel. En viljir þú ekki koma með mér til Babýlonar láttu það þá ógert. Sjáðu, allt landið liggur opið fyrir þér, þú getur farið hvert sem þú vilt. 5 Ef þú vilt vera hér um kyrrt snúðu þá við til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, sem konungurinn í Babýlon hefur sett yfir borgirnar í Júda. Þú getur sest að hjá honum meðal fólksins eða farið hvert sem þú vilt.“ Foringi lífvarðarins fékk honum því næst nesti, gaf honum gjöf og kvaddi hann. 6 En Jeremía fór til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa. Hann settist að hjá honum meðal fólksins sem eftir var í landinu.

Gedalja landstjóri í Júda

7 Allir herforingjarnir, sem enn voru dreifðir um landið ásamt mönnum sínum, fréttu nú að konungurinn í Babýlon hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið honum umsjón með körlum, konum og börnum og þeim fátæklingum í landinu sem ekki höfðu verið fluttir til Babýlonar. 8 Þeir héldu nú til Gedalja í Mispa ásamt mönnum sínum. Þetta voru þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan og Jónatan Kareasynir, Seraja Tanhúmetsson, einnig synir Efaí frá Netófa og Jesanja, sonur manns nokkurs frá Maaka. 9 Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, vann þeim og mönnum þeirra eið og sagði: „Óttist ekki að þjóna Kaldeum. Verið um kyrrt í landinu og þjónið konunginum í Babýlon, þá mun yður vel farnast. 10 Ég bý sjálfur í Mispa til að vera fulltrúi yðar gagnvart Kaldeum þegar þeir koma til vor. En þér skuluð birgja yður upp af víni, ávöxtum og olíu, setja í geymsluker yðar og vera um kyrrt í borgunum sem þér takið til eignar.“ 11 Júdamennirnir, sem voru í Móab, hjá Ammónítum eða í Edóm, og hinir, sem voru í ýmsum öðrum löndum, fréttu nú að konungurinn í Babýlon hefði skilið einhverja eftir í Júda og sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, landstjóra yfir það. 12 Júdamennirnir sneru þá allir heim frá hverjum þeim stað sem þeir höfðu verið hraktir til og héldu til Júda, til Gedalja í Mispa. Vín- og ávaxtauppskera varð mjög mikil.

Gedalja myrtur

13 Einhverju sinni komu Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir, sem enn voru dreifðir um landið, til Gedalja í Mispa 14 og spurðu hann: „Er þér kunnugt um það að Baalis, konungur Ammóníta, hefur sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?“ En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki. 15 Þá lagði Jóhanan Kareason til við Gedalja á laun í Mispa: „Ég skal fara og drepa Ísmael Netanjason án þess að nokkur verði þess vís. Hvers vegna ætti hann að ráða þér bana svo að allir Júdamennirnir, sem hafa safnast saman um þig, tvístrist og það sem eftir er af Júdamönnum verði að engu?“ 16 En Gedalja Ahíkamsson svaraði Jóhanan Kareasyni: „Láttu þetta ógert. Það sem þú segir um Ísmael er ekki satt.“