(LWI) — „Hvílíkar gleðifregnir fyrir allt kristið fólk í Úkraínu,“ segir Pavlo Shvarts, biskup Þýsku evengelísk-lúthersku kirkjunnar í Úkraínu (GELCU). „Núna höfum við í höndunum langþráða, nýja, heildstæða þýðingu á Biblíunni á nútíma-úkraínsku.“

Þýðingunni var upphaflega ýtt úr vör af Hinu úkraínska biblíufélagi http://www.ukrbs.org í maí síðastliðnum. Hún er árangur langvarandi, árangursríkrar vinnu sem hófst árið 1992 og inniheldur þýðingin helgirit Gamla og Nýja testamentisins, en þau voru þýdd úr hebresku og forngrísku.

„Marteinn Lúther lagði áherslu á kennivald Biblíunnar,“ segir Shvarts. „Og hann lagði einnig áherslu á nauðsyn þess að þýða Biblíuna á daglegt mál venjulegs fólks.“

„Tungumál taka stöðugum umbreytingum,“ útskýrir biskupinn. „Þess vegna þörfnumst við nýrra þýðinga á Heilagri ritningu eftir því sem tímar líða, þannig að Orð Guðs verði skýrt og skiljanlegt fólki í nútímasamfélagi.“

GELCU hefur þegar fengið jákvæð viðbrögð þar sem hún hefur notað nýju þýðinguna við biblíulestra og persónulegar helgistundir. Nú hefur verið ákveðið að nota hana opinberlega við guðsþjónustur og þegar vísað er í biblíukafla á vefsíðu kirkjunnar og á samfélagsmiðlum.

Útgáfa biblíuþýðingarinnar á nútímaúkraínsku  er „árangur teymisvinnu — þess vegna getum við óhikað kallað hana samkirkjulega, og hana má nota innan allra safnaða,“ segir Shvarts. Ennfremur, „lögðu þýðendur hart að sér við að leita jafnvægis á milli bókstaflegrar merkingar textans og aðlögunar hans að bókmenntalegu og menningarlegu samhengi.“

„Ég er stoltur af því að litla kirkjan okkar er á meðal meðlima Hins úkraínska biblíufélags og vonast til þess að við við getum haldið áfram þessu árangursríka samstarfi,“ segir Shvarts. Hið úkraínska biblíufélag var stofnað árið 1991, tveimur mánuðum áður en landið lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum. Í dag taka tuttugu kirkjur þátt í starfi Biblíufélagsins, þar á meðal réttrúnaðarkirkjan, rómversk-kaþólska kirkjan, lútherska kirkjan og aðrar mótmælendakirkjur.

Lykilmanneskja í þýðingarferlinu var Rafail Turkonyak, erkiábóti grísk-kaþólsku kirkjunnar í Úkraínu. Hann er sérfræðingur í fornum tungumálum og ákafur biblíuáhugamaður og ekki síst er hann frábærlega vel að sér í úkraínsku máli,“ að sögn Shvarts.

Til þess að tryggja fjárframlög frá áhugasömum aðilum hefur Hið úkraínska biblíufélag birt frumútgáfur nokkurra rita Gamla testamentisins og hafa boðið upp á ritskoðun, „Þetta er góð æfing sem gefur lesandanum færi á  að vinna með textann og leggjasitt lóð á vogarskálarnar til þess að úr verði þýðing í hæsta gæðaflokki,“ heldur Shvarts áfram sannfærður.

Þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson – https://www.lutheranworld.org/news/ukraine-joy-over-new-bible-translation