Ímyndið ykkur hvernig það er að afrita alla Biblíuna… með því að skrifa hana með penna orð fyrir orð! Fyrir suma kristna Kínverja á borð við Yong* var erfitt að ná í Biblíur. Að skrifa upp eigið afrit var eina leiðin sem hann gat hugsað sér til þess að eignast Orð Guðs.

Yong lifði af árás Japana í síðari heimsstyrjöldinni og síðan hina illræmdu menningarbyltingu.

Þegar prestur í þorpinu þar sem hann býr deildi fagnaðarerindinu með Yong fyrir rúmlega 30 árum, tók Yong trú og sú trú veitti honum þann frið sem hafði svo lengi verið ofar hans skilningi. En litla kirkjan hans átti aðeins eina Biblíu. Hinir trúuðu fóru til kirkjunnar dag og nótt og biðu þess að röðin kæmi að sér að lesa Biblíuna.

Það var þá sem Yong uppgötvaði hvert markmið hans ætti að vera í lífinu. Þar sem hann var kominn á eftirlaun, ákvað hann að verja öllum sínum tíma í að afrita einu Biblíuna í kirkjunni á meðan enginn annar var að lesa hana.

Dag eftir dag afritaði hann Biblíuna þolinmóður og skoðaði síðan vandlega afrakstur sinn. Hann lauk þessu dirfskuverki sínu eftir fimm ára erfiði og strit. Loksins gat hann lesið og lagt stund á Biblíuna heima!

En mörg í þorpi Yongs þörfnuðust sinnar eigin Biblíu og það er styrktaraðilum um allan heim að þakka, að þau hafa nú fengið eigin Biblíu.

Þegar vinir Biblíufélagsins í Bandaríkjunum komu til þess að dreifa hundruðum Biblía, varð Yong orðlaus af þakklæti.

„Allir munu eignast þennan fjársjóð og þeir munu einnig kynnast Guði með dýpri hætti,“ segir Yong. „Þessar gjafir eru englar fagnaðarerindisins.“

*Nafni breytt til verndar einkalífi.

Þýðing: Þorgils Hlynur Þorbergsson – https://news.americanbible.org/article/bringing-the-bible-to-spiritually-hungry-people – Upphaflega birt á heimasíðu Ameríska biblíufélagsins 2006.