Jeremía bjargað úr dýflissu

1 Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason heyrðu boðskapinn sem Jeremía hafði flutt öllu fólkinu þegar hann sagði: 2 „Svo segir Drottinn: Sá sem verður um kyrrt í þessari borg mun falla fyrir sverði, af hungri eða drepsótt. Sá sem yfirgefur hana og fer til Kaldea heldur lífi. Líf hans verður herfang hans og hann heldur lífi. 3 Svo segir Drottinn: Þessi borg verður vissulega seld her Babýloníukonungs í hendur og hann mun taka hana.“
4 Þá sögðu höfðingjarnir við konung: „Það verður að taka þennan mann af lífi. Hann dregur úr hugrekki þeirra hermanna sem eftir eru í borginni og hugrekki alls fólksins með því að flytja þennan boðskap. Því að þessi maður stuðlar ekki að velfarnaði þessa fólks heldur ófarnaði.“ 5 Sedekía konungur svaraði: „Hann er á yðar valdi því að konungurinn getur ekki staðið gegn yður.“
6 Þá gripu þeir Jeremía og settu hann í gryfju Malkía, sonar konungs, sem er í forgarði varðliðsins. Þeir létu Jeremía síga niður í reipi. Ekkert vatn var í gryfjunni, aðeins leðja, og sökk Jeremía ofan í leðjuna.
7 Ebed Melek frá Kús var geldingur sem þjónaði í konungshöllinni. Hann heyrði að Jeremía hefði verið varpað í gryfjuna. Konungur sat þá í Benjamínshliði 8 en Ebed Melek kom frá höllinni og sagði við konung: 9 „Herra minn og konungur. Þessir menn hafa unnið níðingsverk með öllu því sem þeir hafa gert Jeremía spámanni. Þeir köstuðu honum í gryfjuna og þar mun hann deyja úr hungri því að brauð er ekki lengur til í borginni.“ 10 Konungur gaf þá Ebed Melek frá Kús þessi fyrirmæli: „Taktu með þér þrjá menn héðan og dragðu Jeremía spámann upp úr gryfjunni áður en hann lætur lífið.“ 11Ebed Melek tók þá mennina með sér og hélt til konungshallarinnar og í klæðageymsluna. Þangað sótti hann rifna og slitna fataræfla og lét síga í reipum niður í gryfjuna til Jeremía. 12 Ebed Melek frá Kús sagði við Jeremía: „Settu larfana í handarkrikana undir reipin.“ Jeremía gerði það 13 og síðan drógu þeir hann upp með reipum. Þegar þeir höfðu dregið hann upp dvaldist Jeremía í forgarði varðliðsins.