Sendimenn Sedekía og Jeremía
1 Sedekía Jósíason varð konungur eftir Konja Jójakímsson. Nebúkadresar konungur í Babýlon gerði hann að konungi í Júda. 2 En hvorki hann sjálfur, þjónar hans né landsmenn hlustuðu á boðskapinn sem Drottinn lagði Jeremía í munn.
3 Eitt sinn sendi Sedekía konungur Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með þessi boð: „Bið fyrir oss til Drottins Guðs.“
4 Jeremía var frjáls ferða sinna meðal fólksins þar sem hann hafði ekki enn verið settur í fangelsi. 5Her faraós var þá lagður af stað frá Egyptalandi og þegar Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, fréttu það hörfuðu þeir frá Jerúsalem.
6 Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns:
7 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið við Júdakonung sem sendi yður að leita ráða hjá mér: Her faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til lands síns, Egyptalands. 8 Kaldear munu koma aftur og ráðast á þessa borg, taka hana og brenna til ösku. 9 Svo segir Drottinn: Blekkið ekki sjálfa yður með því að halda að Kaldear séu í raun farnir fyrir fullt og allt því að þeir eru ekki farnir. 10 Þó að þér fellduð allan her Kaldea, sem berst gegn yður, þannig að aðeins nokkrir helsærðir menn væru eftir í tjöldum sínum mundi hver og einn þeirra rísa upp í tjaldi sínu og brenna þessa borg til ösku.
Spámaðurinn í fangelsi
11 Þegar her Kaldea hafði hörfað frá Jerúsalem undan her faraós 12 ætlaði Jeremía að fara frá Jerúsalem til Benjamínslands til að taka þátt í að skipta arfi með ættingjum sínum. 13 Þegar hann kom að Benjamínshliði var maður að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar, yfirmaður varðliðsins þar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: „Þú ætlar að gerast liðhlaupi og fara til Kaldea.“ 14Jeremía svaraði: „Það er ósatt. Ég ætla ekki að gerast liðhlaupi og ganga í lið með Kaldeum.“ En Jería hlustaði ekki á hann heldur tók hann fastan og fór með hann til höfðingjanna. 15 Þeir voru Jeremía reiðir, börðu hann og settu því næst í varðhald í húsi Jónatans ríkisritara því að það hafði verið gert að fangelsi. 16 Þannig hafnaði Jeremía í fangaklefa í hvelfingunum. Þar sat Jeremía lengi.
17 Þá lét Sedekía konungur sækja hann og spurði hann á laun í höll sinni: „Hefur nokkurt orð komið frá Drottni?“ Jeremía svaraði: „Já, þú verður seldur konunginum í Babýlon í hendur.“ 18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: „Hvað hef ég brotið af mér gegn þér, hirðmönnum þínum og þessari þjóð, fyrst þér setjið mig í fangelsi? 19 Hvar eru nú spámenn yðar sem boðuðu: Konungurinn í Babýlon mun ekki ráðast á yður og þetta land? 20 En hlustaðu nú og gerðu bón mína, herra minn og konungur. Láttu ekki flytja mig aftur í hús Jónatans ríkisritara því að það yrði minn bani.“
21 Sedekía konungur skipaði þá svo fyrir að Jeremía yrði hafður í haldi í forgarði varðliðsins. Hann fékk daglega brauð úr bakaragötunni þar til ekkert brauð var lengur til í borginni. 22 Jeremía sat þannig um kyrrt í haldi í forgarði varðliðsins.