Jójakím brennir bókina

21 Þá sendi konungur Jahúdí til þess að sækja bókina og hann tók hana með sér úr herbergi Elísama ríkisritara. Því næst las Jahúdí hana í áheyrn konungs og allra embættismannanna sem stóðu umhverfis hann.
22 Konungur dvaldist í vetrarhöllinni því að þetta var í níunda mánuðinum. Kolaeldur logaði í eldstæðinu fyrir framan hann. 23 Í hvert skipti sem Jahúdí hafði lesið þrjá eða fjóra dálka skar konungur þá af bókrullunni með pennahníf og fleygði í eldinn í eldstæðinu þar til öll bókin var brunnin. 24 Hvorki varð konungur hræddur né þeir af þjónum hans sem heyrðu þessi orð. Enginn þeirra reif klæði sín. 25 Þó að Elnatan, Delaja og Gemaría legðu fast að konungi að brenna ekki bókina hlustaði hann ekki á þá. 26 Hins vegar skipaði konungur konungssyninum Jerahmeel, Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann. En Drottinn faldi þá.
27 Þegar konungur hafði brennt bókina með boðskapnum, sem Barúk hafði skrifað eftir Jeremía, kom orð Drottins til Jeremía: 28 „Fáðu þér aðra bók og skrifaðu á hana öll þau orð sem voru á hinni fyrri sem Jójakím Júdakonungur brenndi. 29 En um Jójakím Júdakonung skaltu segja: Svo segir Drottinn: Þú brenndir þessa bók og sagðir: Hvers vegna skrifaðir þú á hana að konungurinn í Babýlon mundi koma og eyða þetta land og afmá þaðan menn og skepnur? 30 Þess vegna segir Drottinn þetta um Jójakím konung í Júda: Hann skal engan niðja eiga er sitji í hásæti Davíðs. Lík hans mun liggja úti í hitanum á daginn og í kuldanum um nætur. 31 Ég dreg hann sjálfan, niðja hans og þjóna til ábyrgðar vegna sektar þeirra. Ég sendi allt það böl yfir þá og íbúana í Jerúsalem og Júda, sem ég hótaði þeim og þeir skeyttu ekki um.“
32 Þá tók Jeremía aðra bók og fékk hana Barúk Neríasyni skrifara. Hann ritaði á bókina það sem Jeremía las fyrir, allt það sem staðið hafði á bókinni sem Jójakím Júdakonungur hafði brennt. Enn fremur var bætt við miklum boðskap sem líktist hinum.