1 Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: 2 „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. 3 Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“
4 Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
5 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“
Þeir sögðu: „Sjö.“
6 Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. 7 Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. 8 Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. 9 En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.