Frásagnir Barúks
Jójakím og boðun Jeremía
1 Á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:
2 Fáðu þér bók og skráðu á hana allt sem ég hef boðað þér gegn Ísrael og Júda og gegn öllum þjóðum, frá þeim degi er ég hóf að tala til þín, allt frá stjórnartíð Jósía og til þessa dags. 3 Þegar ættbálkur Júda heyrir um allt það illa sem ég hyggst gera þeim munu þeir ef til vill hlusta. Þá mun hver og einn snúa af sínum vonda vegi og ég fyrirgefa þeim sekt þeirra og synd.
4 Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason og Barúk skrifaði á bók allt það sem Jeremía las honum fyrir og Drottinn hafði flutt honum. 5 Síðan gaf Jeremía Barúk þessi fyrirmæli: „Ég fer huldu höfði. Ég get ekki farið í hús Drottins. 6 En far þú á föstudegi og lestu fyrir söfnuðinn úr bókinni orð Drottins sem þú hefur skrifað upp eftir mér. Þú skalt einnig lesa fyrir alla þá Júdamenn sem koma þangað frá borgum sínum. 7 Ef til vill kemur bæn þeirra um miskunn fyrir auglit Drottins og ef til vill snúa þeir hver og einn frá villu síns vegar því að Drottinn hefur hótað þessu fólki reiði og heift.“
8 Barúk Neríason gerði allt, sem Jeremía spámaður fól honum, og las orð Drottins upp úr bókinni í húsi Drottins.
9 Á fimmta stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs voru gefin út fyrirmæli í níunda mánuðinum um föstu fyrir augliti Drottins. Allir Jerúsalembúar og allir sem komu frá borgum sínum í Júda til Jerúsalem voru kallaðir til föstunnar. 10 Þá las Barúk boðskap Jeremía upp úr bókinni í áheyrn alls fólksins í húsi Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar ríkisritara sem er við efri forgarðinn við innganginn í Nýja hliðið að húsi Drottins.
11 Þegar Míka Gemaríason, Safanssonar, hafði hlustað á allan boðskap Drottins sem var í bókinni 12 fór hann niður í höll konungsins og í herbergi ríkisritarans þar sem allir æðri embættismennirnir héldu sig. Þar voru Elísama ríkisritari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir embættismennirnir. 13 Míka skýrði þeim frá boðskapnum, sem hann hafði hlýtt á þegar Barúk las upp úr bókinni í áheyrn fólksins.
14 Þá sendu allir embættismennirnir Jahúdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með þessi boð: „Taktu með þér bókina sem þú last úr í áheyrn fólksins og komdu hingað.“ Barúk Neríason tók með sér bókina og kom til þeirra. 15 Þá sögðu þeir við hann: „Fáðu þér sæti og lestu hana fyrir oss.“ Barúk las hana fyrir þá.
16 Þegar þeir höfðu hlýtt á boðskapinn urðu þeir skelfingu lostnir, litu hver á annan og sögðu: „Vér verðum að skýra konungi frá þessu öllu.“ 17 En þeir spurðu Barúk og sögðu: „Segðu oss nú hvernig þú skrifaðir allt þetta.“ 18 Barúk svaraði þeim: „Jeremía las mér það fyrir og ég skrifaði það með bleki á bókina.“ 19 Þá sögðu embættismennirnir við Barúk: „Farðu í felur ásamt Jeremía. Enginn má vita hvar þið eruð.“ 20 Því næst gengu þeir fyrir konung í hallargarðinum eftir að hafa komið bókinni fyrir í herbergi Elísama ríkisritara. Síðan sögðu þeir konungi allt af létta.