33. kafli

Fyrirheit Drottins rætist

14 Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. 15 Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. 16 Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort. 17 Því að svo segir Drottinn: Niðjar Davíðs skulu ætíð sitja í hásæti Ísraels. 18 Og aldrei skal skorta Levítapresta til þess að ganga fram fyrir auglit mitt og færa brennifórn, brenna kornfórn og bera fram sláturfórn dag hvern.
19 Orð Drottins kom til Jeremía:
20 Svo segir Drottinn: Ef unnt er að rjúfa sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina svo að dagur hætti að taka við af nótt á réttum tíma 21 er unnt að rjúfa sáttmála minn við Davíð, þjón minn, svo að enginn niðja hans taki sæti sem konungur í hásæti hans, þá fyrst verður unnt að rjúfa sáttmála minn við Levítaprestana sem þjóna mér. 22 Ég mun fjölga niðjum Davíðs, þjóns míns, og Levítunum sem þjóna mér svo að þeir verði jafnmargir og himinsins her sem enginn getur talið og sjávarsandurinn sem ekki verður mældur.
23 Orð Drottins kom til Jeremía: 24 Hefurðu ekki tekið eftir því sem þetta fólk segir: Drottinn hefur hafnað báðum ættbálkunum sem hann útvaldi. Þeir hæðast að lýð mínum og telja hann ekki lengur neina þjóð. 25 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem ég hef gert sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörð reglur 26 mun ég hvorki hafna niðjum Jakobs né Davíðs, þjóns míns. Ég mun velja menn af niðjum hans til að ríkja yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs því að ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.

34. kafli

Örlög Sedekía

1 Orðið, sem kom til Jeremía frá Drottni þegar Nebúkadresar konungur í Babýlon ásamt öllum her sínum og öllum konungsríkjum jarðar, sem hann ríkti yfir, og öllum þjóðum réðst gegn Jerúsalem og öllum borgunum umhverfis hana:
2 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Farðu og ávarpaðu Sedekía Júdakonung og segðu við hann: Svo segir Drottinn: Ég sel hér með þessa borg í hendur konunginum í Babýlon og hann mun brenna hana til ösku. 3 Sjálfur munt þú ekki ganga honum úr greipum. Þú verður tekinn til fanga og seldur í hendur honum. Þú munt horfast í augu við konunginn í Babýlon. Hann mun tala við þig augliti til auglitis og þú munt koma til Babýlonar. 4 En hlýddu nú á orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú munt ekki falla fyrir sverði, 5 þú munt deyja í friði. Eldur verður kveiktur þér til heiðurs eins og eldur var kveiktur til heiðurs forfeðrum þínum, konungunum sem voru á undan þér, og menn munu syrgja þig og segja: „Vei, herra.“ Ég hef sjálfur talað þetta, segir Drottinn.
6 Jeremía spámaður flutti Sedekía Júdakonungi öll þessi boð í Jerúsalem 7 þegar her konungsins í Babýlon barðist gegn Jerúsalem og þeim borgum í Júda sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Það voru einu víggirtu borgirnar í Júda sem ekki höfðu verið teknar.