Svar Drottins

26 Þá kom orð Drottins til Jeremía: 27 Ég er Drottinn, Guð alls dauðlegs. Er mér nokkuð um megn? 28 Þess vegna segir Drottinn: Ég sel þessa borg í hendur Kaldeum og Nebúkadresari konungi í Babýlon og hann mun taka hana. 29 Kaldear, sem ráðast á þessa borg, munu ryðjast inn í hana. Þeir munu kveikja í borginni og brenna hana til ösku og húsin þar sem Baal voru færðar reykelsisfórnir á þökum uppi og öðrum guðum dreypifórnir til þess að vekja reiði mína. 30 Enda hafa Ísraelsmenn og Júdamenn allt frá æsku sinni gert það eitt sem illt var í augum mínum. Ísraelsmenn hafa aðeins vakið reiði mína með handaverkum sínum, segir Drottinn. 31 Allt frá þeim degi er þessi borg var reist og til þessa dags hefur hún vakið gremju mína og reiði. Nú mun ég fjarlægja hana frá augliti mínu 32 vegna allra þeirra illu verka sem Ísraelsmenn og Júdamenn hafa unnið til að vekja reiði mína, þeir sjálfir, konungar þeirra, embættismenn, prestar og spámenn, bæði íbúar Júda og Jerúsalem. 33 Þeir sneru við mér bakinu en ekki andlitinu. Ég hef kennt þeim án afláts en þeir hafa hvorki viljað hlusta né látið sér segjast. 34 Þeir hafa komið sínum viðurstyggilegu guðum fyrir í húsinu sem kennt er við nafn mitt og vanhelgað það. 35 Þeir byggðu fórnarhæðir handa Baal í Hinnomssonardal til þess að geta látið syni sína og dætur ganga gegnum eldinn fyrir Mólok. En ég hef hvorki boðið þeim það né hefur mér nokkru sinni komið til hugar að þeir mundu fremja svo viðurstyggilegt athæfi og tæla Júdamenn með því til syndar.
36 En nú segir Drottinn, Guð Ísraels, um þessa borg sem þið segið að verði seld konunginum í Babýlon í hendur með sverði, hungri og drepsótt: 37 Ég safna þeim saman frá öllum þeim löndum sem ég hrakti þá til í heift minni, reiði og bræði. Ég leiði þá aftur til þessa staðar og læt þá búa þar óhulta. 38 Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. 39 Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. 40Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. 41 Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.
42 Svo segir Drottinn: Eins og ég sendi þjóðinni þetta mikla böl sendi ég henni allt hið góða sem ég hét henni. 43 Aftur verða jarðir keyptar og seldar í þessu landi sem þér segið um: Það er eyðimörk án fólks og fénaðar, seld Kaldeum í hendur. 44 Akrar verða aftur keyptir fyrir fé, kaupsamningar gerðir, innsiglaðir og vottfestir, bæði í Benjamínslandi og héruðunum umhverfis Jerúsalem, í borgum Júda og í fjalllendinu, í borgunum á sléttlendinu og í Suðurlandinu því að ég sný við högum þeirra, segir Drottinn.