Þá skildi ég að þetta voru boð frá Drottni 9 og keypti akurinn í Anatót af Hanameel, syni föðurbróður míns. Ég greiddi honum verðið, sautján sikla silfurs. 10 Síðan skrifaði ég kaupsamninginn og innsiglaði hann. Þá lét ég votta staðfesta hann og vó silfrið á vog.
11 Því næst tók ég kaupsamninginn, bæði innsiglaða eintakið og það opna, 12 og fékk Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, kaupsamninginn í viðurvist Hanameels, sonar föðurbróður míns, og vottanna sem höfðu undirritað samninginn og allra þeirra Júdamanna sem voru í garði varðliðsins. 13 Ég gaf Barúk þessi fyrirmæli í viðurvist þeirra: 14 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Taktu við þessum skjölum, þessum kaupsamningi, bæði innsiglaða eintakinu og því opna, og settu þau í leirker svo að þau varðveitist lengi. 15 Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Að nýju verður verslað með hús, akra og víngarða í þessu landi.

Bæn Jeremía

16 Þegar ég hafði afhent Barúk Neríasyni kaupsamninginn bað ég til Drottins og sagði: 17 Æ, Drottinn minn og Guð. Þú hefur gert himin og jörð með miklum mætti þínum og útréttum armi. Ekkert er þér um megn. 18 Þú auðsýnir þúsundum tryggð og kærleika og lætur synina gjalda fyrir sekt feðranna eftir þeirra dag, mikli, sterki Guð, sem berð nafnið Drottinn hersveitanna. 19 Mikill ert þú í ráðum og máttugur í verkum þínum. Augu þín vaka yfir öllum vegum mannanna svo að þú getir goldið hverjum og einum eftir breytni hans og ávexti verka hans. 20 Þú gerðir tákn og stórmerki í Egyptalandi og hefur gert þau allt til þessa dags, bæði í Ísrael og meðal annarra manna. Þannig vannst þú þér nafnfrægð sem enn varir. 21 Þú leiddir lýð þinn, Ísrael, út úr Egyptalandi með undrum og stórmerkjum, sterkri hendi og útréttum armi og mikilli skelfingu. 22 Þú fékkst þeim þetta land sem þú hafðir heitið feðrum þeirra að gefa þeim, land sem flýtur í mjólk og hunangi. 23 En þegar þeir komu og tóku það til eignar hlýddu þeir ekki boðum þínum og fóru ekki eftir lögum þínum. Þeir hafa ekki gert neitt af því sem þú bauðst þeim. Þess vegna hefur þú sent þeim allt þetta böl. 24Árásarvirkin eru nú þegar komin að borginni, hún verður brátt unnin. Með sverði, hungri og drepsótt verður borgin seld í hendur Kaldeum sem ráðast á hana. 25 Samt segir þú við mig, Drottinn minn og Guð: „Kauptu akur fyrir fé og láttu votta staðfesta það nú þótt borgin sé fallin í hendur Kaldeum.“