31. kafli
Hin nýja Jerúsalem
38 Þeir dagar koma, segir Drottinn, að borg Drottins verður endurreist frá turni Hananels að Hornhliðinu. 39 Mælisnúran mun liggja beint að Garebhæð og sveigja síðan til Góa. 40 Allur dalurinn með líkunum og fórnaröskunni og hlíðarnar að Kídronlæk austur að horninu við Hrossahliðið verða helgaðar Drottni. Ekkert verður nokkru sinni framar upprætt þar eða rifið niður.
32. kafli
Jarðakaup Jeremía
1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda stjórnarári Sedekía Júdakonungs en það var átjánda stjórnarár Nebúkadresars. 2 Her konungsins í Babýlon sat þá um Jerúsalem og Jeremía spámaður var í haldi í garði varðliðsins við höll Júdakonungs. 3 Sedekía Júdakonungur hafði hann þar í haldi og sagði: „Hvers vegna hefur þú flutt þennan boðskap: Svo segir Drottinn: Ég sel þessa borg í hendur konunginum í Babýlon sem mun vinna hana. 4 Sedekía Júdakonungur mun ekki ganga Kaldeum úr greipum heldur verður hann seldur konunginum í Babýlon í hendur. Hann mun standa frammi fyrir honum og tala við hann augliti til auglitis. 5 Hann mun flytja Sedekía til Babýlonar og þar verður hann þar til ég vitja hans, segir Drottinn. Ef þér berjist við Kaldea hafið þér ekki erindi sem erfiði?“
6 Jeremía sagði: Orð Drottins kom til mín: 7 Hanameel, sonur Sallúms, föðurbróður þíns, mun koma til þín og segja: Kauptu akur minn sem er í Anatót því að þér ber að kaupa hann samkvæmt innlausnarskyldunni. 8 Hanameel, sonur föðurbróður míns, kom síðan til mín í garð varðliðsins eins og Drottinn hafði sagt. Hann sagði við mig: „Kauptu akur minn í Anatót í landi Benjamíns. Þar sem þú hefur innlausnarskylduna samkvæmt eignarréttinum skaltu kaupa hann.“ Þá skildi ég að þetta voru boð frá Drottni