Ramakvein

15Svo segir Drottinn:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börn sín, [
hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna
því að þau eru ekki framar lífs.
16Svo segir Drottinn:
Hættu að gráta,
haltu aftur af tárum þínum
því að þú færð umbun erfiðis þíns,
segir Drottinn:
Þeir snúa aftur heim úr landi fjandmannanna.
17Niðjar þínir eiga von,
segir Drottinn,
því að börn þín koma aftur heim til lands síns.
18Ég heyrði kvein Efraíms:
„Þú hirtir mig og ég tók hirtingunni
líkt og óvaninn kálfur.
Lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við
því að þú ert Drottinn, Guð minn.
19Þegar ég sneri frá þér iðraðist ég.
Eftir að ég öðlaðist skilning barði ég mér á brjóst,
sneyptur og fullur blygðunar,
því að á mér hvíldi skömm æsku minnar.“
20Er Efraím mér svo kær sonur
eða slíkt eftirlætisbarn?
Í hvert skipti sem ég ávíta hann
hlýt ég að minnast hans.
Þess vegna hef ég meðaumkun með honum,
hlýt að sýna honum miskunn,
segir Drottinn.

Hvatt til heimfarar

21Reistu vörður, komdu fyrir vegvísum,
hafðu gætur á veginum,
leiðinni sem þú gekkst.
Snúðu aftur, mærin Ísrael,
snúðu aftur til borga þinna.
22 Hve lengi ætlarðu að eigra um stefnulaust,
fráhverfa dóttir?
Því að Drottinn skapar nýtt í landinu:
konan mun vernda karlinn.

Blessun heitið

23 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þegar ég hef snúið við hag íbúanna í Júda verða þessi orð sögð að nýju í landinu og borgum þess: „Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall.“ 24 Akuryrkjumenn og hirðingjar munu búa saman í landinu, í Júda og borgum þess. 25 Ég svala þorsta hins örmagna og metta hinn magnþrota.
26 Við þetta vaknaði ég og leit í kringum mig. Ég hafði sofið vært.