Nú í ár hafa vaknað ýmsar spurningar í tengslum við útgáfu danska Biblíufélagsins á Dönsku samtímabiblíunni 2020. Á næstu vikum munum við birta hér á Biblian.is nokkrar greinar frá danska Biblíufélaginu, þar sem ýmsum ákvörðunum við þýðingu dönsku samtímabiblíunnar verður velt upp. Allan Rosengren, lektor við Sorø-akademíuna og þýðandi Annarrar Mósebókar og Orðskviðanna, útskýrir hér, hvernig „heiður“ varð að „virðingu“ í nýju dönsku biblíuþýðingunni.
Flestir nú á dögum gera sér enn grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur að heiðra einhvern. Spurningin snýst samt sem áður ekki um það hvort lesendur þekki sagnorðið „að heiðra“, heldur um það, hvort það sé hugtak, sem notað yrði í dag í svipuðu samhengi eins og við hittum það fyrir í Annarri Mósebók 20.12.
Þýðendurnir hafa tekið að sér það verkefni að miðla Biblíunni meðal annars til hins ímyndaða Patreks frá Herlev, 16 ára. Myndi Patrekur nota orðið „heiður“ eða „virðingu“ um foreldra?
Nú skulum við ímynda okkur að einn vina hans eða eitt yngri systkina tali niðrandi um foreldra sína. Myndi Patrekur þá segja: „Mundu að þú átt að heiðra foreldra þína“? Það hefði hann aðeins sagt, hefði hann alist upp við biblíuþýðinguna frá 1992 eða svipaða þýðingu. Hann kæmist upp með að skipa fyrir með þessum hætti: „Hey, virðing fyrir gamla settinu!“ (Gamla settið er talmál fyrir „foreldra“ innan vissra hópa, en aðeins í vissu samhengi).
„VIIIIIRÐING!“ Viðurkennt er, að þetta má nota með jákvæðum formerkjum, til dæmis ef skólaliðið hefur unnið annan skóla í knattspyrnu. Það væri alveg dæmigert, ef félagarnir hrópuðu: „Þið eruð skólanum til sóma!“ Ef gamall kennari myndi aftur á móti segja: „VIIIIIRÐING!“ gæti það virkað nánast ógnandi. Maður sér fyrir sér skrílsleiðtogann, sem sýnir meðlimi með ógnandi tilburðum að hann ætli sér að láta til skarar skríða.
Allar þessar þýðingar ná vel hebreska orðinu, þar sem grunnmerking þess út frá uppeldislegu sjónarhorni getur verið sú „að gera mikilvægt“, „að gefa vægi“ eða eitthvað álíka. Í spádómsbók Malakí, 1. kapítula, versi 6, er dregin upp mjög góð mynd af þessu. Í dönsku biblíuþýðingunni frá 1992 hljóðar það svo [bein þýðing á dönsku þýðingunni]:
Sonur heiðrar föður sinn og þræll herra sinn, en ef ég er faðir, hvar er þá sú virðing, sem ég á rétt á? Og ef ég er herra, hvar er þá óttinn gagnvart mér?
Í dönsku samtímabiblíunni 2020 er sami textinn þýddur svona:
Sonur ber virðingu fyrir föður sínum og þræll herra sínum, en ef ég er faðir, hver er þá sú virðing, sem ég á rétt á? Og ef ég er herra einhvers, hver óttast mig þá?
Við skulum ímynda okkur samfélag, þar sem samband feðga líkist sambandi þræls og herra. „Virðing“ er mun betra orð í nútímasamhengi en „heiður“.
Á sama hátt má sjá tvær mismunandi þýðingar á Annarri Mósebók 20.12. Fyrst löggilda danska biblíuþýðingin frá 1992.
Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú fáir langt líf á þeirri jörð, sem Drottinn Guð þinn vill gefa þér.
Og síðan samtímabiblían frá 2020.
Þú skalt bera virðingu fyrir föður þínum og móður þinni. Svona færð þú langt líf á þeirri jörð, sem ég gef þér.