1Á þeim tíma, segir Drottinn,
verð ég Guð allra ættbálka Ísraels
og þeir verða lýður minn.
Heimför úr útlegð
2Svo segir Drottinn:
Sú þjóð sem komst undan sverðinu
hlaut náð eins og í eyðimörkinni.
Ísrael leitaði hvíldar.
3Drottinn birtist honum [ úr fjarlægð:
Með ævarandi elsku hef ég elskað þig,
fyrir því hef ég látið náð mína haldast við þig.
4Ég mun reisa þig við,
þú verður endurreist, mærin Ísrael.
Aftur muntu bera tambúrínur þínar sem djásn
og ganga í dans hinna fagnandi.
5Aftur muntu gróðursetja víngarða
á Samaríufjöllum.
Þeir sem gróðursetja garða skulu njóta þeirra.
6Dagur kemur,
þá hrópa verðirnir á Efraímsfjöllum:
Komið, vér skulum halda upp til Síonar,
til Drottins, Guðs vors.
7Svo segir Drottinn:
Hrópið af gleði yfir Jakob,
hyllið þjóð þjóðanna.
Kunngjörið, lofsyngið og segið:
Drottinn hefur bjargað þjóð sinni,
þeim sem eftir eru af Ísrael.
8Ég flyt þá heim frá landinu í norðri
og safna þeim saman frá endimörkum jarðar.
Blindir og haltir eru meðal þeirra,
þungaðar konur og jóðsjúkar;
fjölmennur söfnuður snýr aftur heim.
9Þeir koma grátandi
og ég leiði þá og hugga.
Ég fer með þá að vatnsmiklum lækjum,
eftir sléttum vegi þar sem þeir hrasa ekki,
því að ég er faðir Ísraels
og Efraím er frumburður minn.
Sorg breytist í gleði
10Þjóðir, hlýðið á orð Drottins,
kunngjörið það á fjarlægum eyjum og segið:
Sá sem dreifði Ísrael safnar honum saman,
hann gætir hans eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.
11Því að Drottinn hefur leyst Jakob,
frelsað hann úr höndum þess sem var honum máttugri.
12Þeir koma og fagna á Síon,
ljóma af gleði yfir hinum góðu gjöfum Drottins,
yfir korni, víni og olíu,
yfir sauðum og nautum.
Þeir verða sjálfir eins og vökvaður garður
og missa aldrei framar mátt.
13Þá munu meyjarnar stíga gleðidans
og ungir fagna með öldnum.
Ég breyti sorg þeirra í gleði,
hugga og gleð þá sem harma.
14Prestunum gef ég ríkulega af feitum fórnum
og þjóð mín mun seðjast af góðum gjöfum mínum,
segir Drottinn.