12Svo segir Drottinn:
Brot þitt verður ekki grætt,
sár þitt ekki læknað.
13Enginn leitar réttar þíns.
Meinið hefst illa við,
þú færð enga bót.
14Allir vinir þínir hafa gleymt þér,
þeir vitja þín ekki
því að ég laust þig sem fjandmann,
hirti þig harðlega
því að sekt þín var mikil,
syndir þínar margar.
15Hví hljóðar þú vegna áverka þíns,
vegna ólæknandi kvalar þinnar?
Vegna mikillar sektar þinnar
og fjölmargra synda
hef ég gert þér þetta.
16En allir sem gleyptu þig verða gleyptir
og allir sem kúguðu þig gerðir útlægir.
Þeir sem rændu þig verða rændir,
þá sem tóku af þér herfang geri ég að herfangi.
17Ég mun græða þig,
lækna sár þín,
segir Drottinn, því að þú varst nefnd „hin brottrekna“,
„Síon sem enginn spyr um“.

Endurreisn þjóðarinnar

18Svo segir Drottinn:
Ég sný við högum Jakobs tjalda
og sýni bústöðum hans miskunn.
Borgin skal endurreist á rústunum
og höllin standa þar sem hún hefur alltaf staðið.
19Þaðan skal hljóma lofsöngur og fögnuður.
Ég fjölga þeim, þeir verða ekki fáir,
ég veiti þeim virðingu, þeir verða ekki lítilsvirtir.
20Synir Jakobs verða sem forðum
og söfnuður hans verður stöðugur fyrir augliti mínu
en alla kúgara hans dreg ég til ábyrgðar.
21Afkomandi hans verður leiðtogi hans,
af ætt hans kemur drottnari hans.
Ég mun leyfa honum að ganga fram fyrir mig
svo að hann geti nálgast mig.
Hver annar mundi hætta lífi sínu
til að nálgast mig? segir Drottinn.
22 Þér verðið mín þjóð
og ég verð yðar Guð.
23 Já, stormur Drottins, reiði hans, brýst fram,
hvirfilvindur sem steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.
24 Bálandi reiði Drottins linnir ekki
fyrr en hann hefur að fullu
framkvæmt fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar munuð þér skilja það.