Bók huggunarinnar

1 Orðið sem kom frá Drottni til Jeremía:
2 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Skráðu í bók öll þau orð sem ég hef flutt þér. 3 Því að þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég sný við hag þjóðar minnar, Ísraels og Júda, segir Drottinn. Ég mun leiða þá aftur til landsins sem ég fékk feðrum þeirra og þeir tóku til eignar.
4 Þetta eru orðin sem Drottinn flutti Ísrael og Júda.

Óttast ekki, ég er með þér

5Svo segir Drottinn:
Vér heyrum angistaróp
til marks um ótta en ekki frið.
6Spyrjið og gætið að:
Getur karl alið barn?
Hví eru allir karlmenn, sem ég sé,
með hendur á lendum eins og kona með jóðsótt?
Hví er hvert andlit nábleikt?
7Já, mikill er þessi dagur,
engum öðrum líkur.
Þetta er þrengingatíð fyrir Jakob
en honum verður bjargað.

8 Þann dag, segir Drottinn hersveitanna, mun ég brjóta okið af hálsi hans og slíta hlekki hans. Þeir munu ekki lengur þræla fyrir framandi menn 9 heldur þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, sem ég mun hefja upp þeirra vegna.
10Óttast ekki, þjónn minn, Jakob,
segir Drottinn,
og lát ekki hugfallast, Ísrael.
Ég mun sjálfur bjarga þér úr fjarlægu landi,
niðjum þínum úr landinu þar sem þeir eru útlagar.
Jakob mun snúa heim og næðis njóta.
Hann mun búa þar óhultur
og enginn ógna honum.
11Já, ég er með þér, segir Drottinn,
til að bjarga þér.
Ég mun eyða öllum þeim þjóðum
sem ég dreifði þér á meðal.
Þér einum mun ég aldrei eyða
en ég mun refsa þér við hæfi
og ekki láta þér með öllu óhegnt.