Bréf Jeremía til útlaganna í Babýlon

1 Þannig hljóðar bréfið sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til þeirra sem eftir voru af öldungum útlaganna, til prestanna, spámannanna og alls fólksins sem Nebúkadnesar hafði flutt í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar. 2 Hann sendi það eftir að Jekonja konungur og konungsmóðirin höfðu yfirgefið Jerúsalem ásamt hirðmönnunum, höfðingjunum í Júda og Jerúsalem, trésmiðum og járnsmiðum. 3 Bréfið sendi hann með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni sem Júdakonungur sendi til Babýlonar, til Nebúkadnesars konungs í Babýlon. Bréfið var á þessa leið:
4 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels, við alla útlagana sem ég sendi frá Jerúsalem til Babýlonar: 5 Reisið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og neytið ávaxta þeirra. 6 Takið yður konur og getið syni og dætur. Takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar svo að þær eignist syni og dætur og yður fjölgi þarna en fækki ekki. 7 Vinnið að hagsæld þeirrar borgar sem ég gerði yður útlæga til. Biðjið Drottin fyrir henni því að hennar heill er yðar heill. 8 Því að svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Látið hvorki spámenn né spásagnamenn, sem eru á meðal yðar, blekkja yður. Hlustið ekki á drauma sem þá dreymir. 9 Því að það er lygi sem þeir boða yður í mínu nafni, ég hef ekki sent þá, segir Drottinn.
10 Já, svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru liðin í Babýlon mun ég vitja yðar. Þá mun ég standa við heit mitt og flytja yður aftur til þessa staðar. 11 Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. 12 Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. 13 Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta 14 læt ég yður finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þeim þjóðum og stöðum sem ég hef hrakið yður til, segir Drottinn. Ég mun flytja yður aftur til þess staðar sem ég gerði yður útlæga frá.
15 Þér segið: „Drottinn lét spámann koma fram vor vegna í Babýlon.“