26. kafli

Morðið á Úría spámanni

20 Annar maður, Úría Semajason, spáði í nafni Drottins. Hann var frá Kirjat Jearím. Hann flutti boðskap gegn þessari borg og þessu landi alveg eins og Jeremía. 21 Þegar Jójakím konungur, allir herforingjar hans og hirðmenn heyrðu um ræður hans leitaðist konungur við að ráða hann af dögum. En þegar Úría frétti það varð hann hræddur og flýði og komst til Egyptalands. 22 En Jójakím konungur sendi Elnatan Akbórsson til Egyptalands ásamt nokkrum mönnum öðrum. 23 Þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs. Hann lét taka hann af lífi með sverði og henda líki hans á grafir múgamanna. 24 En Jeremía naut verndar Ahíkams Safanssonar svo að hann var ekki framseldur múgnum í hendur til lífláts.

27. kafli

Ok Babýlonar

1 Í upphafi stjórnar Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð frá Drottni til Jeremía:
2 Svo sagði Drottinn við mig: Taktu reipi og ok og leggðu á háls þér. 3 Sendu síðan boð til konungsins í Edóm, konungsins í Móab, konungs Ammóníta, konungsins í Týrus og konungsins í Sídon með sendimönnunum sem komnir eru til Jerúsalem, til Sedekía Júdakonungs. 4 Feldu þeim að flytja húsbændum sínum þessi boð: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Segið húsbændum yðar: 5 Ég er sá sem skapaði heiminn, mennina og dýrin á jörðinni. Ég gerði það með mínum mikla mætti og útréttum armi og gef það þeim sem mér þóknast. 6 Nú sel ég öll þessi lönd þjóni mínum, Nebúkadnesari Babýloníukonungi, í hendur. Ég fæ honum jafnvel dýr merkurinnar til þess að þau þjóni honum. 7 Allar þjóðir skulu þjóna honum, syni hans og sonarsyni þar til sá tími kemur yfir landið að voldugar þjóðir og miklir konungar gera það sér undirgefið. 8 En vilji einhver þjóð eða konungsríki ekki þjóna Nebúkadnesari konungi í Babýlon og ekki beygja háls sinn undir ok hans mun ég refsa þeirri þjóð með sverði, hungursneyð og drepsótt, segir Drottinn, þar til ég hef tortímt henni með hendi hans.