5. kafli

Skyldur hjóna

21 Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni: 22 konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. 23 Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar, líkama síns. 24En eins og kirkjan lýtur Kristi, þannig lúti og konurnar eiginmönnum sínum í öllu.
25 Karlmenn, elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana 26 til þess að helga hana með orðinu og hreinsa hana í vatnslauginni. 27 Hann vildi leiða kirkjuna fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt slíkt. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig. 29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold heldur elur hann það og annast eins og Kristur kirkjuna 30 því við erum limir á líkama hans.
31 „Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína og munu þau tvö verða einn maður.“ 32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 33 En sem sagt, hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.

6. kafli

Foreldrar og börn

1 Börn, hlýðið foreldrum ykkar vegna Drottins því að það er rétt.
2 „Heiðra föður þinn og móður“ – það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: 3 „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“.
4 Og feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.

Þrælar og húsbændur

5 Þrælar, hlýðið jarðneskum húsbændum ykkar með lotningu og ótta af einlægni hjartans, eins og það væri Kristur. 6 Ekki með augnaþjónustu eins og þeir er mönnum vilja þóknast heldur eins og þjónar Krists er gera vilja Guðs af heilum huga. 7 Þjónið eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn. 8Þið vitið og sjálfir að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða sem hann gerir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.
9 Og þið, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þið vitið að þeir eiga í himnunum sama Drottin og hann fer ekki í manngreinarálit.