Börn ljóssins
1 Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. 2 Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. 4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. 5Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
6 Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. 7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. 8 Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – 9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. – 10 Metið rétt hvað Drottni þóknast. 11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. 12 Því að það sem slíkir menn fremja í leyndum er jafnvel svívirðilegt um að tala. 13 En allt það sem ljósið afhjúpar verður augljóst. 14 Því að allt sem er augljóst er í ljósi.
Því segir svo:
Vakna þú sem sefur
og rís upp frá dauðum
og þá mun Kristur lýsa þér.
15 Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. 16 Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. 17 Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. 18 Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum 19 og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta 20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.