Nýtt líf

17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þið megið ekki framar hegða ykkur eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, 18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta. 19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.
20 En svo hafið þið ekki lært að þekkja Krist. 21 Jesús er sannleikurinn og ég veit að þið hafið heyrt um hann og verið frædd um hann: 22 Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum 23 en endurnýjast í anda og hugsun og 24 íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
25 Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. 26Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. 27 Gefið djöflinum ekkert færi. 28Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. 29 Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. 30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. 31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. 32 Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.