Leyndardómur Krists opinber

1 Þess vegna er það að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna ykkar, heiðinna manna, beygi kné mín. 2 Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur: 3 Með opinberun birtist mér leyndardómurinn. Um það hef ég stuttlega skrifað áður. 4Þegar þið lesið það getið þið skynjað hvað ég veit um leyndardóm Krists. 5 Hann var ekki birtur mannanna börnum fyrr á tímum. Nú hefur Guð látið andann opinbera hann heilögum postulum sínum og spámönnum: 6 Vegna samfélagsins við Krist Jesú og með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur, einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við.
7 Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis af því að Guð gaf mér þá náð með krafti máttar síns. 8 Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists 9 og að upplýsa alla um það hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi sem frá eilífð var hulinn hjá Guði sem allt hefur skapað.
10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum á himnum hve margháttuð speki Guðs er. 11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. 12 Á honum byggist djörfung okkar. Í trúnni á hann eigum við öruggan aðgang að Guði. 13 Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.