Dómur yfir þjóðunum

30 Þú skalt boða þeim allt þetta og segja:
Drottinn öskrar sem ljón frá hæðum,
hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað.
Hann þrumar hátt yfir haga sinn,
hrópar fagnandi eins og þeir sem troða vínber.
31 Háreystin berst til allra íbúa heims,
allt til endimarka jarðar
því að Drottinn höfðar mál gegn þjóðunum,
heldur rétt yfir öllum dauðlegum
og gefur hina guðlausu sverðinu á vald, segir Drottinn.
32 Svo segir Drottinn hersveitanna:
Ógæfan berst frá þjóð til þjóðar,
voldugur stormur geisar frá endimörkum jarðar.

33 Þeir sem felldir verða af Drottni munu á þeim degi liggja dreifðir um alla jörðina. Þeir verða hvorki syrgðir né þeim safnað saman og þeir verða ekki grafnir. Þeir verða að áburði fyrir jarðveginn.
34 Harmið, hirðar, og kveinið,
veltið yður í rykinu, leiðtogar hjarðarinnar.
Því að sá tími er kominn
að yður verði slátrað,
ég mola yður og þér fallið til jarðar
eins og skrautlegt leirker.
35 Hirðarnir finna ekkert skjól,
leiðtogar hjarðarinnar komast ekki undan.
36 Hlustið, hirðarnir kveina,
leiðtogar hjarðarinnar harma
því að Drottinn eyðir haglendi þeirra,
37 hin friðsælu beitilönd eru sviðin
af brennandi reiði Drottins.
38 Hann kom út úr fylgsni sínu eins og ljón,
land þeirra er lagt í eyði af ógnandi sverði hans
og fyrir hans glóandi heift.