Bikar reiðinnar

15 Svo sagði Drottinn, Guð Ísraels, við mig:
Tak við þessum vínbikar úr hendi minni, bikar reiðinnar, og láttu allar þær þjóðir sem ég sendi þig til drekka úr honum. 16 Þær eiga að drekka svo að þær reiki um og verði viti sínu fjær andspænis sverðinu sem ég mun senda mitt á meðal þeirra.
17 Þá tók ég við bikarnum úr hendi Drottins og lét allar þjóðir, sem Drottinn hafði sent mig til, drekka úr honum: 18 Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að leggja borgirnar í rúst og gera þær að eyðimörk, að aðhlátursefni og tilefni formælinga eins og nú er fram komið, 19faraó Egyptalandskonung, þjóna hans og hirðmenn og alla þegna hans, 20 alla þjóðablönduna, alla konunga í Úslandi, alla konunga Filistea ásamt Askalon, Gasa, Ekron og því sem eftir er af Asdód, 21 Edóm, Móab og Ammóníta, 22 alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konunga eyjanna sem eru handan hafsins, 23 Dedan, Tema og Bús og alla með hárið skorið stutt, 24 alla konunga Arabíu og alla konunga blönduðu þjóðanna sem búa í eyðimörkinni, 25 alla konunga í Simrí, Elam og Medíu, 26 alla konunga fyrir norðan, bæði nær og fjær, hvern eftir annan. Ég læt öll konungsríki heims drekka og síðastur allra á konungur Sesak[ að drekka.
27 Þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: „Drekkið, gerist drukknir, spýið, dettið niður og rísið ekki upp aftur vegna sverðsins sem ég sendi mitt á meðal yðar.“ 28 En ef þeir neita að taka við bikarnum úr hendi þér og drekka skaltu segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna: „Þér verðið að drekka!“
29 Sjá, ég hefst þegar handa við að leiða ógæfu yfir borgina sem kennd er við mig. Ættuð þér þá að komast undan? Nei, þér komist ekki undan því að ég býð út sverði gegn öllum íbúum jarðarinnar, segir Drottinn hersveitanna.