Babýlon, refsivöndur Drottins

1 Orð kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða stjórnarári Jójakíms Jósíasonar Júdakonungs. Það var fyrsta stjórnarár Nebúkadresars, konungs í Babýlon. 2 Þetta er orðið sem Jeremía spámaður flutti allri þjóð Júda og öllum Jerúsalembúum:
3 Orð Drottins hefur komið til mín í tuttugu og þrjú ár, frá því á þrettánda stjórnarári Jósía Amónssonar Júdakonungs og til þessa dags. Ég hef hvað eftir annað flutt yður það en þér hafið ekki hlustað. 4 Drottinn hefur hvað eftir annað sent alla þjóna sína, spámennina, til yðar. En þér gáfuð því engan gaum og lögðuð ekki við hlustir.
5 Ég sagði: Hverfið nú, hver og einn, af yðar vonda vegi og frá yðar illu breytni. Þá getið þér búið áfram í landinu sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar til ævarandi eignar. 6 Eltið ekki aðra guði, þjónið þeim hvorki né tilbiðjið þá. Þér skuluð ekki vekja reiði mína með handaverkum yðar svo að ég valdi yður ekki ógæfu. 7 En þér hlustuðuð ekki á mig, segir Drottinn, heldur vöktuð reiði mína með handaverkum yðar, sjálfum yður til ills.
8 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna: Þar sem þér hafið ekki hlustað á ræðu mína, segir Drottinn, 9 sendi ég eftir öllum ættbálkunum fyrir norðan, segir Drottinn, ásamt þjóni mínum, Nebúkadresari, konungi í Babýlon. Ég mun stefna þeim gegn þessu landi og íbúum þess og gegn öllum þjóðunum umhverfis þá. Ég helga þá banni og geri þá að ógn, aðhlátursefni og ævarandi smán. 10 Ég læt hverfa gleðióp og fagnaðarhróp meðal þeirra, raddir brúðguma, kvarnarhljóð og lampaljós. 11 Allt þetta land verður rúst og auðn. Þjóðirnar þar verða þrælar konungsins í Babýlon í sjötíu ár.
12 Að sjötíu árum liðnum mun ég draga konunginn í Babýlon til ábyrgðar og þjóð hans vegna sektar þeirra, segir Drottinn, og einnig land Kaldea og geri það að ævarandi eyðimörk. 13 Ég mun láta allt sem ég hef talað gegn þessu landi rætast, allt sem skráð er í þessa bók og ræður Jeremía gegn öllum þjóðum. 14 Þær munu einnig verða þrælar margra þjóða og voldugra konunga. Þannig mun ég endurgjalda þeim breytni þeirra og handaverk.