23. kafli

Háðsyrði gegn spámannsorðinu

33 Þegar þetta fólk, einhver spámaður eða prestur, spyr þig: „Hver er byrði Drottins?“ skaltu svara þeim: Þér eruð byrðin og ég fleygi yður af mér, segir Drottinn. 34 Ef einhver spámaður, prestur eða annar af þessu fólki, nefnir „byrði Drottins“ mun ég draga þann til ábyrgðar ásamt fjölskyldu sinni.
35 En þannig skuluð þér spyrja hver annan og segja hver við annan: „Hverju hefur Drottinn svarað og hvað hefur Drottinn sagt?“ 36 En minnist aldrei framar á „byrði Drottins“ því að fyrir hvern mann er hans eigið orð byrði af því að þér hafið rangfært orð hins lifandi Guðs, Drottins hersveitanna, Guðs vors. 37 Þannig skaltu spyrja spámanninn: „Hverju hefur Drottinn svarað þér og hvað hefur Drottinn sagt?“ 38 En ef þér nefnið „byrði Drottins“, segir Drottinn: Þér hafið nefnt „byrði Drottins“, þó að ég hafi sent yður boðbera til að segja: Nefnið ekki „byrði Drottins“. 39 Þess vegna lyfti ég yður upp og fleygi yður burt frá augliti mínu ásamt borginni sem ég gaf yður og forfeðrum yðar. 40 Ég legg á yður ævarandi skömm og smán sem aldrei gleymist.

24. kafli

Tvær fíkjukörfur

1 Drottinn sýndi mér: Tvær körfur með fíkjum stóðu fyrir framan musteri Drottins. Þetta var eftir að Nebúkadresar, konungur í Babýlon, hafði rekið Jekonja Jójakímsson Júdakonung í útlegð frá Jerúsalem ásamt höfðingjum Júda, trésmiðum og járnsmiðum og flutt þá til Babýlonar. 2 Í annarri körfunni voru mjög góðar fíkjur, jafngóðar og snemmsprottnar fíkjur en í hinni voru mjög vondar fíkjur, svo vondar að þær voru óætar. 3 Drottinn spurði mig: Hvað sérðu, Jeremía? Ég svaraði: Fíkjur. Góðu fíkjurnar eru mjög góðar en þær vondu eru mjög vondar, svo vondar að þær eru óætar.
4 Þá kom orð Drottins til mín:
5 Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég lít á útlagana frá Júda sem ég hrakti frá þessum stað til lands Kaldea og viðurkenni að þeir eru góðir eins og þessar góðu fíkjur. 6 Ég lít til þeirra með velþóknun og flyt þá aftur til þessa lands. Ég mun reisa þá við og ekki rífa þá niður, ég mun gróðursetja þá og ekki rífa þá upp með rótum. 7 Ég mun gefa þeim löngun til að þekkja mig og viðurkenna að ég er Drottinn. Þeir munu verða mín þjóð og ég verð þeirra Guð þegar þeir snúa sér til mín af heilum huga.
8 En ég mun fara með Sedekía Júdakonung, hirðmenn hans og þá sem eftir eru af Jerúsalembúum, bæði þá sem eru enn í þessu landi og þá sem sest hafa að í Egyptalandi, eins og ég fer með vondu fíkjurnar sem eru svo vondar að þær eru óætar, segir Drottinn. 9 Ég geri þá öllum konungsríkjum jarðar að ógnvekjandi viðurstyggð, læt þá verða fyrir háði og spotti, gysi og formælingum, hvert sem ég hrek þá. 10 Ég sendi sverð, hungur og drepsótt gegn þeim þar til þeim hefur verið eytt úr landinu sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.