Einkenni falsspámanna

16Svo segir Drottinn hersveitanna:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
17Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“
18En hver hefur staðið í ráði Drottins,
séð hann og heyrt orð hans?
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?
19Sjá, stormur Drottins brýst fram,
hvirfilbylur steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.
20Reiði Drottins slotar ekki
fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar meir munuð þér skilja það.
21Ég sendi ekki þessa spámenn,
samt hlaupa þeir,
ég talaði ekki til þeirra,
samt spá þeir.
22 Hefðu þeir verið í ráði mínu,
þá hefðu þeir boðað þjóð minni orð mín
og snúið henni frá villu síns vegar
og vondri breytni.

Spámenn án umboðs

23 Er ég aðeins Guð í nánd? segir Drottinn,
en ekki Guð í fjarlægð?
24 Getur nokkur falist í fylgsnum
þar sem ég get ekki séð hann? spyr Drottinn.
Er það ekki ég
sem fylli bæði himin og jörð? spyr Drottinn.

25 Ég hef heyrt hvað spámennirnir, sem boða lygi í mínu nafni, segja: „Mig dreymdi draum, mig dreymdi draum.“ 26 Hve lengi getur þetta gengið? Er nafn mitt í huga þeirra spámanna sem boða lygi og blekkingu úr eigin hjarta?
27 Þeir reyna að fá þjóð mína til að gleyma nafni mínu með draumunum sem þeir segja hver öðrum, rétt eins og forfeður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals. 28 Sá spámaður sem hefur dreymt draum segir aðeins eigin draum en sá sem hefur mitt orð flytur orð mitt í sannleika.
Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? spyr Drottinn.
29 Er orð mitt ekki eins og eldur? spyr Drottinn,
eins og hamar sem molar kletta?
30 Ég snýst gegn spámönnunum, segir Drottinn,
af því að þeir stela orðum mínum
hver frá öðrum.

31 Nú snýst ég gegn spámönnunum, segir Drottinn. Þeir nota eigin tungu til að flytja boð frá Guði. 32Nú snýst ég gegn spámönnunum sem segja logna drauma, segir Drottinn, og blekkja þjóð mína með lygum sínum og raupi. Ég hef hvorki sent þá né gefið þeim fyrirmæli, þeir eru þessari þjóð til einskis gagns, segir Drottinn.