Deilt á spámenn og presta

9Um spámennina:
Hjartað í brjósti mér brestur,
öll bein mín skjálfa.
Ég er eins og drukkinn maður,
eins og maður sem er ofurölvi
vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.
10Landið er fullt af hórkörlum,
landið syrgir vegna bölvunarinnar,
beitilöndin í óbyggðunum skrælna.
Þeir hlaupa á eftir illskunni,
rangindi eru styrkur þeirra.
11Bæði spámenn og prestar eru guðlausir,
ég hef jafnvel orðið var við illsku þeirra í húsi mínu,
segir Drottinn.
12Þess vegna mun vegur þeirra reynast þeim háll,
þeim verður hrint út í myrkrið
og þar hrasa þeir.
Því að ég færi þeim ógæfu
árið sem þeim verður refsað, segir Drottinn.

Siðleysi spámannanna

13Á meðal spámannanna í Samaríu
hef ég einnig séð andstyggilegt athæfi:
Þeir spáðu í nafni Baals
og leiddu þjóð mína, Ísrael, afvega.
14Og meðal spámannanna í Jerúsalem
hef ég séð hryllilegt athæfi.
Þeir hórast og ljúga,
styðja illvirkja,
svo að enginn þeirra hverfur frá illri breytni sinni.
Fyrir mér eru þeir allir orðnir eins og Sódóma,
borgarbúar eins og Gómorra.
15Þess vegna segir Drottinn hersveitanna um spámennina:
Ég gef þeim malurt að eta
og eitrað vatn að drekka
því að siðleysið hefur breiðst út um allt landið
frá spámönnunum í Jerúsalem.