Nú í vetur hafa vaknað ýmsar spurningar í tengslum við útgáfu danska Biblíufélagsins á Dönsku samtímabiblíunni 2020. Á næstu vikum munum við birta hér á Biblian.is nokkrar greinar frá danska Biblíufélaginu, þar sem ýmsum ákvörðunum við þýðingu samtímabiblíunnar verður velt upp. Við ríðum á vaðið með fréttatilkynningu frá vinum okkar í Danmörku þar sem leitast er við að bregðast við ýmsum rangfærslum um útgáfuna.

Rangar upplýsingar um nýju, dönsku biblíuþýðinguna, Dönsku samtímabiblíuna 2020 hafa verið á sveimi. Staðhæft er í nokkrum fréttamiðlum að orðinu Ísrael og orðunum Gyðingur og gyðinglegur sé sleppt úr þýðingunni og talið er að ástæðan fyrir því sé af stjórnmálalegum og andsemitískum toga. Ekkert gæti verið fjær sanni. Orðin Ísrael og Ísraelsmenn koma fyrir rösklega 2000 sinnum í þýðingunni og orðin Gyðingur og gyðinglegur koma fyrir rúmlega 500 sinnum. Til að mynda er Jakob enn nefndur Ísrael í 1. Mósebók og þjóð Guðs er enn nefnd Ísrael eða Ísraelsmenn í Gamla testamentinu. Reyndar hafa Konungabókunum og Krónikubókunum verið gefnir nýir undirtitlar — nefnilega Saga konunga Ísraels 1 & 2 og Saga Ísraels 1 & 2.

Danska samtímabiblían 2020 er sérstök gerð af biblíuþýðingu sem á að höfða til lesenda sem eru óvanir kirkjusókn, með litla sem enga þekkingu á Biblíunni, sögu hennar og hefðbundnu kirkju- og biblíumáli. Þetta hefur í för með sér að margt er þýtt öðruvísi en í hefðbundnum biblíuþýðingum. Til dæmis eru ekki notuð hefðbundin dönsk orð yfir synd, náð, miskunn, sáttmála og mörg biblíuorð til viðbótar, sem almennum, dönskum lesanda eru framandi. Í þýðingunni á Nýja testamentinu er notast við orðin gyðingaþjóð, Gyðingar, Guðs útvalda þjóð eða einfaldlega þjóðin sem þýðingu á Ísrael, þar sem meirihluti danskra lesenda gerir sér ekki grein fyrir því að Ísrael í Nýja testamentinu vísar í stórum dráttum til þjóðar Guðs sem hann hefur gert sáttmála við.

Nýja testamentið á samtímadönsku var fyrst gefið út árið 2007. Það hefur verið lítillega endurskoðað fram að útgáfu Dönsku samtímabiblíunnar 2020. Í þessari endurskoðun hefur spurningin um Ísrael ekki verið reifuð. Í ljósi þeirrar gagnrýni sem upp hefur komið mun Hið danska biblíufélag vandlega íhuga hvort einstök vers í Nýja testamentinu þarfnist endurskoðunar.

Með dönsku samtímabiblíunni 2020 er reynt að gefa nýjum lesendum færi á að upplifa ástarorð Guðs með skiljanlegum hætti.

Danska samtímabiblían 2020 er ekki biblíuþýðing ætluð til lögbundinnar notkunar í evangelísk-lúthersku kirkjunni í Danmörku — hún er til viðbótarlestrar. Hið danska biblíufélag gefur einnig út lögbundna útgáfu þar sem Ísrael er þýtt með hefðbundnum hætti sem Ísrael.


Spurt og svarað: Danska samtímabiblían 2020 og Ísrael

Sp: Hafið þið sleppt úr orðinu „Ísrael“ í Dönsku samtímabiblíunni 2020?

Sv: Nei. Í Dönsku samtímabiblíunni 2020 koma Ísrael og Ísraelsmenn fyrir rösklega 2000 sinnum.

Sp: Hafið þið sleppt úr orðinu „Gyðingar“ í Dönsku samtímabiblíunni 2020?

Sv: Nei, orðin „Gyðingur“, „gyðinglegur“ og „Gyðingar“ koma fyrir ríflega 500 sinnum í Dönsku samtímabiblíunni 2020.

Til dæmis:

Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu, þegar Heródes var konungur. Dag nokkurn kom hópur stjörnufræðinga frá Austurlöndum og spurði: „Hvar er ungbarnið sem hefur fæðst til þess að verða konungur Gyðinga? Við höfum séð stjörnu þess rísa í austrinu og við erum nú komnir til þess að vegsama það. (Matteusarguðspjall 2.1-2, Danska samtímabiblían 2020).

og

Guð lofaði því að af afkomendum Davíðs myndi hann velja mann til þess að bjarga gyðingaþjóðinni, sem hann hefur nú gert, og nafn hans er Jesús. (Postulasagan 13.23, Danska samtímabiblían 2020).

Sp: Hvers vegna nefnir Nýja testamentið „Ísrael“ aðeins einu sinni í Dönsku samtímabiblíunni 2020?

Sv: Í Nýja testamentinu hefur orðið „Ísrael“ verið þýtt sem „gyðingaþjóðin‘“, „Gyðingar“ eða „þjóðin“ vegna þess að þegar orðið „Ísrael“ er notað í gríska textanum er vísað til fólks sem Guð hefur sérstakt samband við — afkomendur Jakobs. Hins vegar gæti ókirkjuvanur lesandi, sem ekki þekkir Biblíuna vel talið, að Ísrael vísi aðeins til ákveðins lands. Þess vegna hefur orðið „Ísrael“ verið þýtt með öðrum hætti, svo að lesandinn skilji að vísað er til gyðingaþjóðarinnar.

Til dæmis:

Þegar Jesús sá Natanael koma, sagði hann: „Þarna er maður sem treystandi er á, verðugur fulltrúi Guðs útvöldu þjóðar (Jóhannesarguðspjall 1.47, Danska samtímabiblían 2020).

Sp: Hvað með orðið „Ísrael“ í Gamla testamentinu í Dönsku samtímabiblíunni 2020?

Sv: Í Gamla testamentinu eru orðin „Ísrael“ og „Ísraelsmenn“ nefnd rúmlega 2000 sinnum og „Ísrael“ er enn sem fyrr það nafn, sem gefið var patríarkanum Jakobi, eftir næturlanga glímu hans við Guð sem greint er frá í 1. Mósebók (Genesis).

Til dæmis:

„Þú verður ekki lengur kallaður Jakob,“ sagði maðurinn. „Héðan í frá verður þú kallaður Ísrael, því að enginn getur sigrað þig, hvorki er þú glímir við Guð eða mann.“ (1. Mósebók 32.29, Danska samtímabiblían 2020).

„Ísrael“ og „Ísraelsmenn“ eru enn nöfn þeirrar þjóðar, sem Jakob varð ættfaðir í gegnum syni sína tólf.

Til dæmis:

Ísrael skal búa við öryggi.
Heimili þitt er öruggt og ríkmannlegt.
Það eru vínviðir og korn á ökrunum.
Og döggin fellur að ofan.
Engir komast betur af en Ísraelsmenn.
Hvaða þjóð önnur hefur verndara sem Guð? (5. Mósebók 33.28-29, Danska samtímabiblían 2020).

„Ísrael“ er einnig nafn annars konungsríkisins sem varð til eftir dauða Salómons. Norðurríkið var nefnt „Ísrael“ og suðurríkið „Júda“. Í Dönsku samtímabiblíunni eru þessi tvö konungsríki nefnd „Norðurríkið“ og „Suðurríkið“, sem eru þau sígildu nöfn sem notuð eru í biblíurannsóknum.

Um Hið danska biblíufélag

Hið danska biblíufélag er samkirkjuleg stofnun, sem byggð er á kenningum kirkjunnar og er ekki rekin í hagnaðarskyni. Hennar hátign Margrét Þórhildur II. Danadrottning er verndari okkar. Markmið Hins danska biblíufélags er að gefa út Biblíuna og annað biblíutengt efni, til þess að auka notkun Biblíunnar. Hið danska biblíufélag er stofnfélagi Sameinuðu biblíufélaganna (UBS). Sem hluti af UBS styðjum við alþjóðlegan málstað Biblíunnar: Að styðja við þýðingar á Biblíunni, dreifingu Biblíunnar og fleira.


Danska trúboðið í Ísrael hefur gefið út yfirlýsingu sem segir m.a.:

„…þessi þýðing upphefur ekki eða tjáir á nokkurn hátt staðgönguguðfræði (replacement theology), hvað þá andsemitíska eða andísraelska tilfinningu, heldur í raun þvert á móti.“

Höfundur bókarinnar Gyðingar og andgyðingdómur í Esterarbók og kirkjunni, Tricia Miller, kemst að þeirri niðurstöðu að sé Danska samtímabiblían 2020 lesin í heild, og séu þýðingarnar á Ísrael lesnar í samhengi, sé erfitt fyrir lesandann að finna dæmi um staðgönguguðfræði eða and-ísraelska tilfinningu. Hægt er að lesa nánar um niðurstöður hennar á vefslóðinni https://www.breakingisraelnews.com/149995/the-new-danish-bible-a-fresh-perspective-opinion/.

Rétt er að benda á grein dálkahöfundar úr The Jerusalem Post „Dönsk Biblía sem fjarlægir Ísrael er ekki andsemitísk, segir dálkahöfundur“ sem má nálgast á slóðinni https://www.jpost.com/j-spot/danish-bible-that-removed-israel-not-antisemitic-argues-columnist-627881.

Upphaflega fréttatilkynning danska Biblíufélagsins á ensku er á slóðinni http://www.bibelselskabet.dk/new-danish-bible-2020-and-israel.