22. kafli
Jójakín
24 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, jafnvel þótt Konja Jójakímsson Júdakonungur væri innsiglishringur á hægri hendi minni mundi ég slíta þig þaðan. 25 Ég sel þig í hendur þeim sem sækjast eftir lífi þínu, í hendur þeim sem þú óttast, í hendur Nebúkadresari konungi í Babýlon og í hendur Kaldeum. 26 Ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, til annars lands þar sem þið fæddust ekki og þar munuð þið deyja. 27 En þau munu aldrei snúa aftur heim til landsins sem þau þrá að hverfa aftur til.
28 Er þessi maður, Konja, ónothæft ílát sem á að brjóta, er hann verðlaust ker? Hvers vegna hefur honum og niðjum hans verið fleygt í burtu og þeir hraktir til lands sem þeir þekkja ekki?
29 Land, land, land, heyr orð Drottins.
30 Svo segir Drottinn:
Skráið þennan mann barnlausan,
mann sem ekkert hefur orðið úr
því að engum niðja hans
mun takast að setjast í hásæti Davíðs
og ríkja framar yfir Júda.
23. kafli
Framtíð konungsættar og þjóðar
1 Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. 2 Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. 3 En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. 4 Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn.
5 Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. 6 Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“
7 Þeir dagar koma, segir Drottinn, að ekki verður lengur sagt: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,“ 8 heldur: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem leiddi niðja Ísraels og flutti þá heim frá landinu í norðri og frá öllum þeim löndum sem ég hrakti þá til svo að þeir gætu búið í eigin landi.“