Jójakím

13Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,
sali sína með rangindum
og lætur landa sinn þræla án launa
og greiðir honum ekkert.
14Hann segir: „Ég byggi mér stórt hús
og rúmgóðar vistarverur.“
Hann setur í það glugga, þiljar það sedrusviði
og málar það rautt.
15Ríkir þú sem konungur
af því að þú sýnir yfirburði í byggingum úr sedrusviði?
Át faðir þinn ekki líka og drakk?
En hann lagði stund á rétt og réttlæti
og honum vegnaði því vel.
16Hann rak réttar hinna umkomulausu og snauðu
og allt gekk vel.
Er það ekki að játa mig?
spyr Drottinn.
17En þú sérð hvorki né hugsar um annað
en eigin gróða,
að úthella saklausu blóði,
kúga og skattpína.
18Þess vegna segir Drottinn um Jójakím
son Jósía Júdakonungs:
Enginn mun syrgja hann og segja:
„Æ, bróðir minn, vei, systir mín.“
Enginn mun syrgja hann og segja:
„Æ, herra, vei, konungur.“
19Hann verður grafinn eins og asni,
hann verður dreginn burt og honum fleygt
fyrir utan borgarhlið Jerúsalem.

Fall Jerúsalem

20Gakktu upp á Líbanonsfjöll og hrópaðu,
hefðu upp raust þína í Basan,
hrópaðu frá Abarímfjöllum
því að allir elskhugar þínir eru sundurmolaðir.
21Ég talaði til þín þegar þú varst enn áhyggjulaus
en þú sagðir: „Ég vil ekki hlusta.“
Þannig var breytni þín frá æsku:
Þú hlýddir ekki boðum mínum.
22 Stormurinn mun hirða alla hirða þína
og elskhugar þínir fara í útlegð.
Þá hlýtur þú smán og skömm
fyrir alla illsku þína.
23 Þú sem býrð á Líbanon,
gerir þér hreiður í sedrustrjám,
hve mjög muntu stynja
þegar þú færð hríðir
og þjáist eins og jóðsjúk kona.