Konungar varaðir við

1 Svo segir Drottinn:
Farðu niður að höll Júdakonungs og segðu: 2 Hlýddu á orð Drottins, Júdakonungur, sem situr í hásæti Davíðs, þú sjálfur, hirðmenn þínir og þjóð, þér sem gangið um þessi hlið. 3 Svo segir Drottinn: Framfylgið rétti og réttlæti. Bjargið þeim sem rændur hefur verið úr greipum kúgarans. Hafið ekkert ranglega af aðkomumanni, munaðarleysingja eða ekkju. Kúgið engan. Úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað. 4 Ef þér framfylgið þessu boði munu konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, fara um þetta hlið. Þeir sjálfir, hirðmenn þeirra og þjóð munu koma akandi í vögnum og ríðandi á hestum. 5 En ef þér hlýðið ekki þessum orðum sver ég við sjálfan mig, segir Drottinn, að þessi höll verður lögð í rúst.
6 Svo segir Drottinn um höll konungsins í Júda: Fyrir mér ertu sem Gíleað, sem tindur Líbanons, en ég sver að ég mun gera þig að auðn, að óbyggðri borg.
7 Ég helga eyðendur gegn þér. Þeir munu höggva niður voldug sedrustré þín og varpa þeim á eld.
8 Margar þjóðir munu fara fram hjá þessari borg. Þegar menn spyrja hverjir aðra: „Hvers vegna hefur Drottinn farið svona með þessa miklu borg?“ 9 verður svarað: „Af því að þeir sniðgengu sáttmálann við Drottin, Guð sinn, tilbáðu aðra guði og þjónuðu þeim.“

Sallúm

10 Grátið ekki hinn dauða[ og syrgið hann ekki. Nei, grátið þann sem varð að fara því að hann snýr ekki heim, hann mun ekki sjá föðurland sitt aftur. 11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason Júdakonung sem varð konungur eftir föður sinn en varð að yfirgefa þennan stað: Hann snýr ekki aftur hingað 12 því að hann verður fluttur í útlegð og þar mun hann deyja. Þetta land mun hann aldrei framar líta.