23 Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. 24 Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
25 Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. 26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. 27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. 28 Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. 29 Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. 30 Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. 31 En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.